139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

íslenskur landbúnaður og ESB.

[10:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er allt uppi á borðum í þessum efnum. Núna er úti í Brussel verið að gera grein fyrir fjórum greinargerðum um þessi mál þar sem tiltekin eru sérstaklega öll þau atriði sem flaggað er. Þau eru öll í samræmi við það álit og þær leiðbeiningar sem utanríkismálanefnd samþykkti á síðasta ári.

Um þetta hefur verið fjallað í utanríkismálanefnd og á, að því er ég best veit, sameiginlegum fundi fulltrúa hennar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins. Þá mættu formaður samningahópsins og sérfræðingar og svöruðu öllum þeim spurningum sem vöknuðu um flöggunaratriði. Mér er ekki kunnugt um að óskað hafi verið eftir frekari fundi um það efni. Ef það hefði verið gert hefði slíkur fundur að sjálfsögðu verið haldinn. Það bendir til þess að menn hafi fengið tæmandi svör um hvað það væri sem Ísland væri að fara með til að flagga.

Hv. þingmaður spyr út í eitt tiltekið atriði sem er mjög mikilvægt, tollvernd og skýrslu sem gerð verður um hana. Að sjálfsögðu verður hún eins og öll önnur gögn sem þetta mál varðar lögð fyrir utanríkismálanefnd og eftir atvikum aðrar þær nefndir sem eftir því óska. Það er ekkert sem þarf að fela í þessum málum. Umboðið sem samningahópurinn í þessu efni hefur er algjörlega skýrt. Það voru lagðar fram stífar reglur í áliti meiri hlutans á sínum tíma. Eftir þeim er farið og m.a.s. í sumum efnum gengið eilítið lengra þannig að hv. þingmaður þarf ekki að vera hræddur um að það sé neitt verið að gefa eftir. Þar að auki liggur það algjörlega ljóst fyrir að hvaðeina sem þingið vill fá fram af upplýsingum um þetta fær það, hvenær sem það vill.