139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

Landeyjahöfn.

[11:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Landeyjahöfn hefur verið lokuð mun meira en gert var ráð fyrir og rekja sérfræðingar þetta til óhagstæðrar vindáttar og afleiðinga gossins í Eyjafjallajökli sem hefur valdið mjög auknum sandburði inn í höfnina. Það hefur ítrekað þurft að fella niður ferðir Herjólfs og sigla skipinu til Þorlákshafnar.

Nú eftir áramótin hefur verið siglt meira og minna til Þorlákshafnar frá því um miðjan mánuðinn og það hefur leitt til mjög mikils álags á starfsmenn, óvissu og óánægju hjá bæjarbúum í Vestmannaeyjum.

Þann 22. nóvember sl. fór hæstv. innanríkisráðherra í gegnum þær aðgerðir sem hann sá fyrir sér að væri hægt að grípa til til að tryggja að hægt væri að sigla áfram í Landeyjahöfn. Þar nefndi hann að búið væri að opna útboð og ganga frá samningum um að dýpkunarskip verði til staðar í Vestmannaeyjum fyrsta árið og líka var búið að ganga frá samningum við Íslenska gámafélagið. Síðan var rætt um að kaupa plóg í samvinnu við Eyjamenn og að búa til flóðvarnagarð til að færa ósa Markarfljóts austar. Síðan sem framtíðarlausn ætti að koma fyrir föstum dælubúnaði í höfninni. Svo þyrftum við að horfa til lengri tíma um kaup eða smíði á nýrri ferju.

Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra í ljósi þess ástands sem nú er í siglingum Herjólfs, hvenær mun Landeyjahöfn opna aftur? Hvenær kemur umrætt dæluskip? Er hafinn undirbúningur að gerð flóðvarnagarðs við Markarfljóts og er verið að undirbúa kaup á plóg í samvinnu við Eyjamenn? Er einhver vinna hafin við kaup og uppsetningu á föstum dælubúnaði?