139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkilega ræða hjá hæstv. innanríkisráðherra sem tókst í langri ræðu, með lengdan ræðutíma, að skjóta sér undan því að ræða hina raunverulegu ábyrgð sem öllu skiptir í þessu máli, hina pólitísku ábyrgð, ábyrgð þeirra sem áttu frumkvæði að málinu, ábyrgð þeirra sem knúðu málið í gegnum þingið, ábyrgð þeirra sem sáu um framkvæmdina, þar á meðal ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Í stað þess fengum við að hlusta á einhvers konar málflutning sem hljómaði á þann veg að ráðherra hefði áfrýjað niðurstöðu Hæstaréttar til þjóðarinnar, væri hér að flytja mál sitt og ætlaði sannarlega að vinna það vegna þess að hann treystir ekki Hæstarétti. Sjálfur innanríkisráðherra, yfirmaður Hæstaréttar og annarra dómstiga í landinu, talar niður niðurstöðu sex dómara æðsta dómstigsins og gefur til kynna að þeir séu á villigötum. Mér fannst líka á köflum eins og hér væri á ferðinni (Forseti hringir.) einhver lögspekingur að halda málfundaræfingu einhvers staðar uppi í háskóla, kannski í (Forseti hringir.) Lögbergi eða í öðrum fundarsal. Þetta var algjörlega fráleit ræða hjá hæstv. ráðherra.