139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. innanríkisráðherra staðfesti að ráðherrann og ríkisstjórnin eru í fullkominni afneitun um ábyrgð sína á því klúðri sem nú hefur verið upplýst um. Hæstv. ráðherra bendir á alla aðra en sjálfan sig þegar kemur að ábyrgð á málinu. Hann bendir á Hæstarétt og reynir að gera lítið úr niðurstöðu hans, á löggjafann og á framkvæmdaraðilana, embættismenn í dómsmálaráðuneytinu, landskjörstjórn og sveitarfélögin, en ekki ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin ber að mati ráðherrans ekki ábyrgð á þessu máli. Það vantaði bara Sjálfstæðisflokkinn í þessa upptalningu.

Virðulegi forseti. Þetta heitir yfirklór og kattarþvottur því að hin pólitíska ábyrgð liggur hjá meiri hlutanum á Alþingi sem samþykkti þessi lög, hjá forsætisráðherranum sem ber ábyrgð á frumvarpinu og lögunum og hæstv. innanríkisráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmdinni. Henni (Forseti hringir.) verður ekki velt yfir á aðra með útúrsnúningum. Ríkisstjórnin er ekki (Forseti hringir.) ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum eins og hæstv. ráðherra reyndi að færa rök (Forseti hringir.) fyrir í ræðu sinni.