139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra, hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll hefur frá því að Hæstiréttur Íslands birti niðurstöðu sína og kynnti hana reynt að varpa ábyrgðinni á þessu dómadagsklúðri yfir á alla aðra en ríkisstjórnina sjálfa. En það vita það allir sem fylgjast með þjóðmálum á Íslandi að það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Það er rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að málið er grafalvarlegt. Það er svo alvarlegt að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin ættu að hafa manndóm í sér til að biðjast afsökunar og axla ábyrgð á mistökum sínum. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Málið er grafalvarlegt vegna þess að það staðfestir að við völd er vanhæf ríkisstjórn sem getur ekki einu sinni staðið skammlaust að almennum kosningum í landinu. Það eru fréttir sem við viljum ekki að fari út í heim. (Forseti hringir.) Þetta mál stórskaðar ásýnd Íslands sem lýðræðissamfélags (Forseti hringir.) í samfélagi þjóðanna. Það er alvarlegt mál vegna þess að slíkir (Forseti hringir.) atburðir koma ekki upp, þeir eru einsdæmi í hinum (Forseti hringir.) vestræna heimi.