139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkileg ræða hjá hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hún var fyrst og fremst varnarræða vegna frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í átökum um auðlindaákvæði sem þingheimur hefur viljað koma í stjórnarskrá. Við vitum öll í þessum sal hvað kom í veg fyrir það og hvaða flokkur það var sem greip til málþófs til að koma í veg fyrir það á sínum tíma.

Frú forseti. Hv. þingmaður eyddi upphafi ræðu sinnar í að átelja hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa sagt að ágallar á framkvæmd kosninganna hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðuna. Hvernig getur hæstv. ráðherra sagt það? spurði hv. þm. Bjarni Benediktsson. En hann benti ekki sjálfur í ræðu sinni á nokkur rök sem bentu til þess að annmarkarnir hefðu haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Hvers vegna gerði hann það ekki? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra sagði alveg skýrt að niðurstaða dómsins gilti. Síðan leyfði hann sér að reifa forsendur dómsins. Ég tel að það sé fullkomlega réttmætt að menn reifi, jafnvel á Alþingi Íslendinga, niðurstöður og forsendur slíks dóms.

Árið 2005 fóru fram kosningar til fimm sambandsríkja í Þýskalandi. Nokkrum árum síðar komst stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe að því að framkvæmd þeirra kosninga hefði verið áfátt og þær hefðu jafnvel brotið í bága við stjórnarskrá. En sá dómstóll mat hins vegar afleiðingar annmarkanna út frá eðli málsins og ógilti ekki kosningarnar. Það er fullkomlega eðlilegt að menn ræði dæmi af þeim toga í tengslum við niðurstöðu Hæstaréttar. Það liggur einfaldlega fyrir að framkvæmdin var gölluð en hún hafi ekki haft áhrif á niðurstöðuna. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki getað fært nokkur rök fyrir því.