139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það hafa allir rétt og leyfi til að ræða forsendur dómsins. En hvað gerir hæstv. innanríkisráðherra? Hann sagði að við þyrftum fyrst og fremst að ræða um ábyrgð og við þyrftum að líta til nokkurra aðila í því efni. Fyrstan, þegar kom að ábyrgð á málinu, nefndi hæstv. innanríkisráðherra, yfirmaður dómsmála, Hæstarétt. Hann var ekki að tala um forsendur, hann var að tala um ábyrgð á málinu. Fremstan í röðinni nefndi innanríkisráðherrann Hæstarétt, að hann bæri ábyrgð á málinu. Þá erum við ekki að tala um forsendur dómsins. Nei, við erum að tala um ábyrgðina. Það er það sem ég er að gagnrýna.

Að öðru leyti er ég ósammála báðum hæstv. ráðherrum innanríkis- og utanríkismála um að það sé upp á mig að klaga að sýna ekki fram á að þessi atriði hafi í raun og veru haft áhrif. Nei, (Gripið fram í.) það er grundvallarmisskilningur. Það er innanríkisráðherrann sem segir að annmarkarnir hafi ekki haft áhrif en öll kæruatriði gefa tilefni til að efast um það. Það er það sem utanríkisráðherrann skilur ekki. (Forseti hringir.) Það er vafinn um þetta sem leiðir til þessarar niðurstöðu.