139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:59]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist yfir þessari ræðu hv. formanns Sjálfstæðisflokksins, þingmannsins Bjarna Benediktssonar, þar sem hann krefur fólk um pólitíska ábyrgð. Ég tel það einfaldlega hlálegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli koma hér upp og krefjast þess að aðrir stjórnmálamenn sýni pólitíska ábyrgð og hafi áhyggjur af álitshnekki þingsins.

Hvar er pólitísk ábyrgð þeirra ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem voru valdir að hruninu? Hvar er pólitísk ábyrgð þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem voru á þingi fyrir hrunið, hvar er sú pólitíska ábyrgð? Hvaða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sögðu af sér? Hvaða þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu af sér? Þeir hrökkluðust nokkrir út í nokkrar vikur eða nokkra mánuði og hafa svo komið inn aftur einn af öðrum og er von á fleirum. Það er bara hlálegt að hlusta á þetta, hv. þingmaður.

Mig langar hins vegar að spyrja hann í framhaldi af þessu um afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokksins sjálfs til stjórnlagaþings almennings almennt og að almenningur í landinu semji drög að stjórnarskrá. Við hljótum að taka tillit til þess að Alþingi Íslendinga nýtur ekki trausts þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Því hefur mikið til mistekist algjörlega við það að gera endurbætur á stjórnarskránni í gegnum áratugina. Ástæðan fyrir stjórnlagaþinginu er einmitt sú að Alþingi nýtur ekki trausts þjóðarinnar og að þinginu hefur ekki tekist sjálfu að breyta stjórnarskránni.

Sú leið sem valin var er því að mörgu leyti neyðarbrauð en hún er líka að mörgu leyti mjög lýðræðisleg og hefur verið til fyrirmyndar og vakið mikla athygli á heimsvísu. Þess vegna vil ég vita frá Sjálfstæðisflokknum hvað þeir muni gera þegar kemur að því að halda hér nýtt stjórnlagaþing.