139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann er í raun og veru, og sjálfstæðismenn, mótfallinn þessu stjórnlagaþingi. Það skýrir kannski þar af leiðandi viðbrögð talsmanna flokksins í þeirri afleitu stöðu sem upp er komin núna varðandi dóm Hæstaréttar.

Þó að núna sé talað gegn stjórnlagaþinginu, sem þjóðin reyndar vildi og kaus til, höfðu engu að síður hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki döngun í sér til að tala gegn og taka afstöðu gegn málinu þegar við afgreiddum lögin um stjórnlagaþing hér í sumar. Þeir sátu hjá. Þeir sitja nefnilega hjá í hverju málinu á fætur öðru en koma svo fram hér, tala eins og dómendur og kalla eftir ábyrgð allra annarra en ekki þeirri ábyrgð sem þeir ættu þá að horfast í augu við sjálfir.

Alþingi ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessu máli, hinni lagalegu hlið þess. En við skulum ekki skirrast við það heldur að ræða ábyrgð þeirra sem hafa kveðið upp hæstu dóma í þessu máli, Hæstaréttar. Auðvitað ber Hæstiréttur ábyrgð á sínum úrskurði og þeim afleiðingum sem af honum hljótast. Við erum hvorki sem löggjafarþing né þegnar í þessu landi svo skyni skroppin í lýðræðissamfélagi að við megum ekki ræða forsendur dóma, harðra dóma, hæstu dóma sem eru óvefengjanlegir. Að sjálfsögðu hljótum við að ræða forsendur þeirra dóma. Málfrelsinu og lýðfrelsinu væri alvarleg hætta búin ef Hæstiréttur væri yfir það hafinn að við ræddum á skynsamlegum forsendum það sem felst í þeim úrskurðum sem þar eru felldir.