139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og heyra mátti af ræðu hv. þingmanns hefur þjóðin nú fengið skýr svör við því hvar ábyrgðin liggur. Hún er sem sagt annars vegar hjá Hæstarétti að mati hv. þingmanns og svo hins vegar hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir hjásetu í málinu. Er þetta niðurstaða hv. þingmanns um meginatriði þeirrar stöðu sem upp er komin eftir úrskurð Hæstaréttar?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei stutt hugmyndina um stjórnlagaþing, hvorki þegar það átti að vera löggefandi né þegar það er ráðgefandi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hversu mörg hundruð milljónum telur hv. þingmaður réttlætanlegt að verja í ráðgefandi þing til að senda Alþingi hugmyndir um það hvernig eigi að breyta stjórnarskránni, að láta vinna í hópi 25 einstaklinga hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni sem hver og einn hefur verið kosinn til á sínum einstaklingsforsendum? Sameiginlega standa þau í sjálfu sér ekki fyrir neitt enda hafa menn eftir kosninguna reynt að finna út hvað sameinar þennan hóp. Það hefur smám saman borist í gegnum fjölmiðla eftir að þau hafa hist óformlega sem segir okkur auðvitað að kjósendur vissu í sjálfu sér ekki neitt hvað þeir fengju þegar þeir gengu til kosninga til stjórnlagaþingsins.

Nú er staðan sú, hæstv. forseti, að ekkert stjórnlagaþing er á dagskrá. Það er búið að ógilda kosninguna og nú spyr þjóðin: Á að endurtaka kosninguna? Ætlar ríkisstjórnin að skipa þessa 25 einstaklinga eða dettur mönnum kannski í hug að gera það hér á þinginu? Hvað ef menn ætla ekki að gefa kost á sér? Hvað ef stjórnarandstaðan tekur ekki þátt í því, ætla menn þá að skipa 25 manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána með meirihlutavaldi frá Alþingi án þess að um það fari fram nein hlutfallskosning?

Þetta eru spurningarnar sem þjóðin er að spyrja sig, (Forseti hringir.) frú forseti. Hv. þingmaður veigrar sér við því að taka á (Forseti hringir.) því, heldur bendir á Sjálfstæðisflokkinn.