139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:23]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið hv. þingmann að halda ró sinni. Það er einfaldlega þannig að hv. þm. Ólöf Nordal sagði, aðspurð í Kastljósi sjónvarpsins, að Sjálfstæðisflokkurinn mundi ekki styðja málið þótt það yrði unnið betur.

Sem betur fer fyrir Sjálfstæðisflokkinn, mundi ég segja, erum við nú á því augnabliki að geta vandað málsmeðferðina. Við þurfum að hefja aftur meðferð málsins með einum eða öðrum hætti, hvort sem það verður með því að skipa stjórnlaganefnd eða kjósa aftur til stjórnlagaþings. En þá ber svo við að Sjálfstæðisflokkurinn heldur því fram að það skipti engu máli. Fyrst er gagnrýnt að málið sé unnið allt of hratt, talað um flýtimeðferð á því, en þegar annað býðst skiptir það engu máli vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er bara á móti málinu og ætlar að vera á móti því, sama hvernig það verður unnið. Það skiptir engu máli hvernig málið verður unnið, Sjálfstæðisflokkurinn er á móti því að efna til stjórnlagaþings. Liggur það ekki fyrir? (Gripið fram í.)