139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kosið verður til Alþingis eftir tvö ár og ekkert því til fyrirstöðu. Þetta mál snýst ekki um það.

Það eru þrír möguleikar í stöðunni núna að mínu mati: Að skipa, eins og ég sagði fyrir tveimur dögum, svokallaða stjórnlaganefnd þar sem Alþingi velur einfaldlega þá einstaklinga sem búið var að kjósa í kosningunum sem þó eru ógildar. Það er enn þá raunhæfur möguleiki. Við getum efnt til kosninga til stjórnlagaþings að nýju með öllu því ferli sem við blasir þannig að auglýst verði eftir nýjum framboðum o.s.frv. Við getum líka endurtekið eingöngu kosninguna. Mér sýnist að það gæti líka verið möguleiki. Þá þyrfti eingöngu að gera breytingu á lögum er varða dagsetningu kosninganna og breytingu á lögum er varða merkingu atkvæðaseðlanna. Önnur atriði sem Hæstiréttur tekur til í málinu eru framkvæmdaratriði sem þyrfti að breyta. Þá þyrfti ekki að auglýsa eftir nýjum framboðum og væri hægt að kjósa að nýju eftir þann tíma sem stjórnsýslan telur sig þurfa til að undirbúa nýjar kosningar.