139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Töluvert hefur verið rætt í dag um ábyrgð. Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt á það mikla áherslu að hér hafi verið um að ræða klúður við framkvæmd málsins. Niðurstaða Hæstaréttar felur það í sér að um sé að ræða galla á framkvæmd en ekki lagasetningunni. Og hver ber ábyrgð á framkvæmdinni? (Gripið fram í: Enginn.) Fyrst og fremst er það hæstv. forsætisráðherra, en Alþingi þarf líka að sjálfsögðu eins og nokkrir hafa nefnt hér að skoða sinn þátt í málinu. Það er líka mikið talað um að menn verði að læra af þessari reynslu, læra og gera betur næst, en hversu mikil alvara er á bak við slíkar yfirlýsingar? Við höfum nefnilega oft áður séð yfirlýsingar sem hljóma vel en lítið er svo farið eftir, t.d. frá því fólki sem talaði hvað mest um eflingu beins lýðræðis en hefur svo verið á móti því að setja öll stærstu mál undanfarinna ára í þjóðaratkvæðagreiðslu, og m.a.s. sniðgengið þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem var þvinguð upp á ríkisstjórnina.

Það fólk sem reynir að byggja pólitíska stöðu sína á einkavæðingu fyrir mörgum árum síðan hefur svo ráðist í umfangsmestu og leynilegustu einkavæðingu Íslandssögunnar. Það fólk sem talaði svo mikið um faglega stjórnsýslu hefur sett met í ráðningum flokksfélaga sinna án auglýsingar. Þeir sem kynntu sig sem talsmenn almennings og töluðu um skjaldborgina fyrir heimilin hafa vandræðast með stöðu íslenskra heimila í tvö ár. Og þeir sem kynntu sig sem velferðarstjórnina hafa vegið að velferð, að heilbrigðismálum á landsbyggðinni, af meiri hörku en dæmi eru um áður. Og þeir sem töluðu hvað mest um mikilvægi þess að axla ábyrgð, þó sérstaklega pólitíska ábyrgð, kannast ekki við neitt slíkt í þessu gríðarlega mikla klúðursmáli. Ekki hvað síst virðist hæstv. forsætisráðherra ekki kannast við neitt slíkt, jafnvel þó að hæstv. ráðherra hafi á sínum tíma viljað herða enn lög um landsdóm til að ítreka það að stjórnmálamenn ættu ekki að komast hjá ábyrgð vegna þess sem undirmenn þeirra framkvæma.

En nú kannast hæstv. forsætisráðherra ekki við neitt tal um ábyrgð. Í staðinn kom hæstv. forsætisráðherra hér í fyrradag og steytti hnefann framan í þingið, barði í púltið og sagðist vera að framkvæma vilja fólksins.

Mér finnst eitthvað hálfóþægilegt, sérstaklega í svona hálfgerðu upplausnarástandi eins og er í þjóðfélaginu núna, þegar stjórnmálamenn tala um að þeir séu að framkvæma vilja fólksins. Það er svo sem kannski allt í lagi að lýsa því yfir að eitthvað sé vilji almennings ef menn telja að það sé ríkjandi skoðun meðal almennings, mjög mikill meiri hluti fyrir því, og jafnvel tala um að þjóðin sé á einhverri skoðun ef það er algjör meiri hluti. Það mætti t.d. segja að þjóðin fagni því þegar íslenska handknattleikslandsliðinu gengur vel. En það er eitthvað rangt við það þegar stjórnmálamenn fara að tala um sig sem fulltrúa fólksins, „das Volk“ á þýsku eða „narod“ á rússnesku, þegar menn fara að lýsa því yfir að þeir einir séu þess megnugir að framfylgja þessum vilja og verði hugsanlega að ganga býsna langt til að framfylgja þessum vilja sem þeir telja að fólkið hafi. Þá fara að hringja viðvörunarbjöllur.

Í uppreisninni gegn stjórn kommúnista í Austur-Þýskalandi var reyndar kjörorðið: Við erum fólkið. Það var til að minna á það að flokkurinn sem var þar ráðandi, í því landi á þeim tíma, gat ekki notað þetta og haldið því fram að hann væri fulltrúi fólksins og væri að framkvæma vilja þess eins og menn hafa því miður fallið í þá gryfju aftur og aftur að gera hér, ekki hvað síst varðandi þetta stjórnlagaþing. Við getum nefnilega ekki látið eins og ekkert sé, eins og að ekkert hafi gerst frá því að lögin voru samþykkt á sínum tíma fram að dómi Hæstaréttar. Síðan hefur ýmislegt komið í ljós. Kostnaðurinn var jú töluverður en lærðum við ekki eitt og annað af þeim kostnaði? Til dæmis það að hugsanlega voru ýmsir gallar á því kosningakerfi sem Alþingi hafði samþykkt áður en Hæstiréttur hafnaði kosningunum sjálfum. Það var t.d. mikið ójafnræði milli landsbyggðar og þéttbýlis, höfuðborgarsvæðisins. Þekkt fólk, frægt fólk, komst miklu frekar á stjórnlagaþingið en aðrir, þ.e. það var kannski ekki svo mikið samhengi milli sérfræðiþekkingar á þessu sviði, miklu meiri fylgni milli þess hversu þekktir menn voru. Áhugi almennings var því miður, verður að segjast, ekkert sérstaklega mikill, kosningaþátttaka 35,95% og veruleg vonbrigði. Það kom mér á óvart hversu lítil þátttakan varð. Svo hefur í rauninni komið kannski enn frekar í ljós í framhaldinu, ef menn fara að horfa í skoðanakannanir, að almenningur, fólkið, virðist a.m.k. ekki setja þetta mál í 1. sæti.

Ættum við ekki einmitt að ræða þetta og velta því fyrir okkur hvað betur megi fara, hvort við höfum staðið nógu vel að verki og nálgunin verið rétt? Til dæmis gætum við velt fyrir okkur hvort þingið hafi þorað að ræða málið á sínum tíma almennilega eða að menn hafi hreinlega óttast að fá á sig þann stimpil að þeir væru andlýðræðislegir, á móti eflingu lýðræðis, á móti fólkinu, óttast það að einhverjir álitsgjafar eða hugsanlega þingmenn færu að hrópa um að þeir sem væru að tefja framgang þessa máls væru óvinir fólksins. Þingið má ekki láta setja sig í þá stöðu að þora ekki að ræða allar hliðar mála, að einhver ein skoðun sé svo ríkjandi að menn óttist jafnvel bara að tefja framgang þeirrar leiðar sem er ofan á.

Við sjáum umræðuna nú þegar, þegar menn vilja staldra við og læra af reynslunni og taka mið af því sem við höfum séð á síðustu mánuðum. Þá fá menn það á sig að þeir séu a.m.k. á móti stjórnlagaþingi, og líklega á móti lýðræðinu líka. Hvaða breyting verður ef við ætlum aftur að vinna málið með þeim hætti að þeir sem vilja hafa varann á eigi á hættu að vera sakaðir um að vera andstæðingar lýðræðis? Við þurfum að velta fyrir okkur alvöruspurningum, t.d. hvort forgangsröðunin hafi verið rétt hjá okkur, hvernig best sé að standa að því að laga og bæta stjórnarskrána. Ég held að flestir séu þrátt fyrir allt sammála um að það sé ákaflega mikilvægt verkefni og við þurfum að velta fyrir okkur hverju við sækjumst raunverulega eftir. Mér heyrist vera ágætissamstaða um auðlindir í eigu þjóðarinnar og eflingu þingræðis. Við þurfum að velta þessu fyrir okkur en ekki tala eins og handhafar hins eina sannleika, talsmenn fólksins. Við þurfum að velta fyrir okkur forgangsröðinni, hvort við eigum kannski að gefa okkur tíma í að hugleiða þetta almennilega en efla atvinnulífið á meðan, leysa loksins eins og hægt er skuldavandann sem almenningur er í ekkert síður en fyrir tveimur árum. Við þurfum að nota þann tíma sem þannig gefst, sem er nægur, til að finna bestu hugsanlegu lausn á því hvernig við getum bætt stjórnarskrá Íslands og hætta að óttast upphrópanafólkið og þá sem kunna því betur að grafa undan þeim sem halda fram andstæðum skoðunum en að byggja upp í krafti eigin raka.