139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem gefur tækifæri til að árétta það sem var megininntak ræðunnar, einmitt það hvað Framsóknarflokkurinn vill gera núna. Framsóknarflokkurinn vill gefa sér tíma til að fara yfir þetta mál af yfirvegun og ræða allar hliðar þess. Það er alveg rétt að við settum þetta sem eitt af þremur skilyrðum fyrir því að veita minnihlutastjórninni vernd á sínum tíma. Hin skilyrðin voru þau að tekið yrði á skuldavanda almennings með tilteknum hætti og ráðist í nauðsynlegar úrbætur í atvinnumálum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvernig það gekk. Þetta mál gekk ekki heldur upp hjá ríkisstjórninni og enn erum við í þeirri stöðu að ekki hefur verið ráðist í þær breytingar sem við viljum gjarnan sjá gerðar á grundvallarreglum lýðveldisins.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðunni að við höfum tíma til að fara yfir málið. Ég nefndi það í ræðunni að við þyrftum að spyrja okkur gagnrýninna spurninga og ég spyr: Getur verið að það hafi verið röng nálgun sem lagt var upp með, þ.e. að ráðast þyrfti í þetta strax vegna þess að það væru óróatímar, og ef þetta yrði ekki gert á óróa- og jafnvel upplausnartímum yrði þetta ekki gert yfir höfuð? Getur verið að það sé ekki til þess fallið að ná bestu niðurstöðunni að ráðast í verkefni af þessu tagi á óróatímum? Þar af leiðandi sé betra að við byrjum á hinum tveimur atriðunum sem Framsóknarflokkurinn setti sem skilyrði fyrir minnihlutastjórninni, að taka á skuldamálunum og atvinnumálunum.