139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Framsóknarmenn eru fleiri en sá sem hér stendur, töluvert fleiri. Þeir nema þúsundum þannig að ég ætla mér ekki að svara fyrir skoðanir alls þess fólks. En hins vegar er það skoðun mín, eins og ég fór reyndar að töluverðu leyti yfir í ræðunni, að við getum ekki sleppt því að taka tillit til þess sem við höfum séð í millitíðinni og taka mið af því. Þegar spurt er: Vill Framsóknarflokkurinn þetta stjórnlagaþing — já eða nei? geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður eigi við: Vill Framsóknarflokkurinn óbreytt lagafrumvarp, algjörlega óbreytt? Ég hugsa að svarið við því hljóti að vera, hvað mig varðar a.m.k.: Nei, við hljótum að vilja læra af reynslunni og betrumbæta þetta. Ef við færum aftur sömu leið er þá ekki hætta á því að niðurstaðan yrði aftur sú sama?