139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt kjarni málsins. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Þingið virðist eiga svo erfitt með að ræða mál öðruvísi en með eða á móti einhverju einu. Þetta já eða nei, já eða nei, þessi hugmynd. Það sem ég er að segja: Við þurfum einmitt að breyta þessari umræðu (Gripið fram í.) og leyfa okkur að tala um það hverju við ætlum að stefna að og bestu leiðina til að ná því.

Framsóknarflokkurinn studdi stjórnlagaþing og engin breyting hefur orðið hvað varðar stefnu flokksins og viðhorf til þess. En sú stefna og sú aðferðafræði sem þar var gert ráð fyrir var töluvert önnur en sú sem menn síðan sættu sig við, kannski, eins og ég fór yfir í ræðunni minni, í of mikilli fljótfærni. Þannig að ég ítreka það enn og aftur að við þurfum að treysta okkur til að ræða hlutina á almennari nótum til þess að geta séð alla kosti og galla, en ekki vera alltaf föst í þessu: „Ertu með eða á móti nákvæmlega þessu?“