139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sannarlega bara einn af þúsundum framsóknarmanna í landinu, en hann er auðvitað leiðtogi þeirra. Við tökum þess vegna eftir því þegar breyting verður á áherslum eins og hér virðist vera. Mér heyrist það vera alveg skýrt að hann telur að þessi vegferð hafi ekki átt þann hljómgrunn með þjóðinni og kannski þróast með þeim hætti að hann telji stjórnlagaþing ekki lengur til brýnna forgangsmála við þessar aðstæður. Ég vil bara fullvissa mig um að það sé réttur skilningur á afstöðu formanns Framsóknarflokksins og þá hvort skilja eigi það þannig að á þessu þingi, og það sem eftir lifir þessa þings til vors, séu það önnur mál og að hans mati brýnni sem eigi að vera í forgangi, en þetta mál eigi að bíða og taka til viðameiri umræðu síðar. Eða hvað á hann við þegar hann telur að þetta sé ekki aðkallandi nú eða forgangsmál?