139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það má kannski segja að í ræðu minni áðan hafi ég, reyndar óviljandi, verið að grafa gildru sem nokkrir þingmenn hafa síðan komið og stokkið ofan í. Það sem hefur komið fram hjá þeim þremur þingmönnum sem hafa komið í andsvör við mig er einmitt sá vandi sem ég var að lýsa. Það er eins og það verði bara eitthvert skammhlaup þegar menn þurfa að fara að hugsa hlutina upp á nýtt. Hér kemur hver þingmaðurinn eftir annan og segir: Bíddu, þú varst ekki nógu ákveðinn í afstöðu þinni, þú varst ekki að berja í borðið og segja stjórnlagaþing, stjórnlagaþing, stjórnlagaþing — ertu þá á móti stjórnlagaþingi? Ég sagðist aldrei vera á móti stjórnlagaþingi. Ég sagði að við ættum að temja okkur ný vinnubrögð og fara yfir hlutina frá grunni, skoða þetta allt saman.

Ég get reyndar svarað síðustu spurningu hv. þm. Helga Hjörvars um tímasetninguna. Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum lengri tíma en nokkra mánuði til að gera þetta almennilega eftir það sem við höfum horft upp á hér á undanförnu rúmu hálfu ári. Já, við skulum byrja á því að fara að gera eitthvað af viti í atvinnumálunum og skuldamálunum og hugum að stjórnlagaþingi á meðan. En eyðum ekki öllum kröftum þingsins næstu vikurnar og mánuðina í það mál og gleymum eina ferðina enn þeim mikilvægu málum sem minnihlutastjórnin var einmitt mynduð til að sinna, vegna þess að þá mátti það ekki bíða í nokkrar vikur að taka á skuldavanda heimilanna og atvinnumálunum. Við töldum að það væri stórhættulegt ef það liði mánuður án aðgerða á þeim tíma. Síðan eru liðin tvö ár, eftir nokkra daga eru komin tvö ár. Að hugsa sér það, tvö ár. Það hefur ekkert gerst að ráði. Þannig að við skulum ekki nota nokkra mánuði í viðbót í eitt mál og gleyma skulda- og atvinnumálunum á meðan. Setjum þau í forgang, vinnum hitt í rólegheitum (Forseti hringir.) og af yfirvegun á meðan.