139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð ekki var við neinar árásir, ég tók bara eftir því að hv. þingmaður stökk ofan í grunnu gildruna og fór að hjakka þar í sama farinu, sem er það að menn eigi að koma hér og sverja nokkurs konar hollustueið ella séu þeir hugsanlega að færa sig yfir á þann kant þar sem eru óvinir lýðræðisins, væntanlega þá nær Sjálfstæðisflokknum, þar sem höfuðóvinir lýðræðisins eru, eins og við höfum fengið að heyra hér í dag.

Nei, það er ekki svo og ég er ekki að segja að við eigum að hætta við stjórnlagaþing. Ég er að segja: Eigum við ekki að nálgast málið með opnum huga í stað þess að, í því uppnámi sem hefur ríkt hér í þinginu eftir niðurstöðu Hæstaréttar, að menn fari að sverja hollustueiða fram og til baka? Nú hafa menn t.d. gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa lýst því yfir með of eindregnum hætti að hann væri á móti stjórnlagaþingi. Eigum við þá ekki að sýna gott fordæmi, sýna sjálfstæðismönnum, vinum okkar, gott fordæmi, og nálgast málin með opnum huga?