139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn sem ekki getur staðið skammlaust og löglega að almennum kosningum í sínu eigin landi er vanhæf ríkisstjórn. Það er ljóst að ríkisstjórn sem ekki getur gert það er fullkomlega vanhæf til að leysa önnur brýnni og flóknari verkefni en það sem æðsti dómstóll landsins hefur nú gert þessa ríkisstjórn afturreka með. Allir dómarar Hæstaréttar voru sammála um niðurstöðuna. Hún var 6:0 eins og sagt er og því eins afgerandi og mögulegt var.

Virðulegi forseti. Það virðast engin takmörk fyrir því hversu illilega þessari ríkisstjórn tekst að klúðra öllum sínum málum, í stóru jafnt sem smáu. Ógilding stjórnlagaþingskosninganna var einungis dropinn sem fyllti mælinn í allri vitleysunni. Icesave-málið og þjóðaratkvæðagreiðslan um það, Svavars-samningurinn, ESB-umsóknin, lausn á skuldavanda heimilanna, skjaldborgin, atvinnuuppbyggingin, Vestia-málið, Sjóvár-málið, málefni sparisjóðanna, Magma-málið, stöðugleikasáttmálinn, sjávarútvegsmálin og mörg önnur hneykslis- og klúðursmál staðfesta vanhæfni þessarar ríkisstjórnar. Listinn er nánast endalaus.

Það var aumkunarvert að fylgjast með framgöngu hæstv. forsætisráðherra hér á dögunum þar sem hún reyndi að varpa allri ábyrgð á málinu af sér og yfir á undirmenn sína. Í sama knérunn hjó hæstv. innanríkisráðherra þegar hann reyndi að varpa ábyrgðinni yfir á Hæstarétt, löggjafann og embættismenn í dómsmálaráðuneytinu, landskjörstjórn og sveitarfélögin.

Það er síðan ekki hægt að láta hjá líða að nefna að það var í rauninni stórbrotið að fylgjast með spunavél Samfylkingarinnar eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir. Hún hrökk í gang með miklum látum og spuninn var sá að reyna að kenna Sjálfstæðisflokknum um niðurstöðu Hæstaréttar. Því var haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn vildi hafa stjórnlagaþingið af þjóðinni. Íhaldið var sagt skíthrætt og að það vildi ekki að sett yrði ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir. Ekkert er fjær sanni eins og hér hefur verið farið yfir. Og alþjóð veit að það var Hæstiréttur Íslands sem ógilti kosninguna, ekki Sjálfstæðisflokkurinn.

Hin pólitíska ábyrgð á þessu dómadagsklúðri liggur hjá meiri hlutanum á Alþingi sem samþykkti lögin um stjórnlagaþing, hjá forsætisráðherranum og hjá innanríkisráðherranum. Þeirri ábyrgð verður ekki velt yfir á aðra með útúrsnúningum. Ríkisstjórnin er ekki ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, en eins og komið hefur fram á ábyrgðarlaust fólk ákaflega erfitt með að bera ábyrgð.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn verður að axla ábyrgð á eigin (Forseti hringir.) gerðum. Það á hún að gera og vonandi mun hún gera það. (Forseti hringir.) Við bíðum spennt eftir að sjá viðbrögð hæstv. (Forseti hringir.) innanríkisráðherra.