139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur umræðan farið víða í dag og fagna ég því. Sú einstaka staða, ef litið er til Vesturlanda, er komin upp að hér í þessu gamalgróna lýðræðisríki voru almennar kosningar dæmdar ógildar. Hér hefur verið litið á margar hliðar á því í dag hverjum er um að kenna og hvers vegna þetta fór eins og það fór og m.a.s. hefur Hæstarétti verið kennt um, sem mér finnst alveg hreint með ólíkindum, sérstaklega úr munni hæstv. innanríkisráðherra.

Hæstiréttur talaði skýrt. Hæstiréttur sendi einfaldlega þessi skilaboð út í samfélagið: Farið þið að lögum. Hæstiréttur vinnur fyrst og fremst á þeim vettvangi, hann metur hvort lög séu brotin í landinu eða ekki. Hæstiréttur gaf enga aðra túlkun en þá að allir landsmenn ættu að fara að lögum, framkvæmdarvaldið líka.

Úr því að við erum í þessari umræðu langar mig að minna á frumvarp sem ég hef ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar lagt fram í þinginu um lagaskrifstofu. Oft var þörf en nú er nauðsyn, frú forseti, að taka það til gagngerrar endurskoðunar hvernig staðið er að lagasetningu á Íslandi. Þá er ég að vísa í að Alþingi þarf að styrkja, bæði fjárhagslega og faglega.

Förum nú aðeins yfir þessa kosningu. Það voru öllum mikil vonbrigði hve dræm kosningaþátttakan var, einungis 36% kosningarbærra manna í landinu kusu þrátt fyrir að lagt væri í mikla kynningarherferð. Stjórnlagaþingið var búið að vera óskabarn þessarar ríkisstjórnar og hæstv. forsætisráðherra svo lengi (Gripið fram í: Þú …) sem yngstu og elstu menn muna. Ráðherrann hefur nú setið í rúm 30 ár á þingi, samt var kosningaþátttakan 36%. Sambærilegar kosningar í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave fóru hér fram fyrir ekki svo löngu. Þá hvöttu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra fólk til að sitja heima og nýta ekki þann lýðræðislega rétt sem hver þegn hefur í lýðræðisþjóðfélagi. Skilaboðin voru: Þið kjósið ekki í þessum kosningum, þetta er sjónarspil. Þá fór kosningaþátttakan upp fyrir 62%, frú forseti. Þetta verðum við að skoða í ljósi þeirra orða sem féllu hjá forsætisráðherra eftir að úrslit þessa máls voru ljós þegar hún sagði að fólkið kallaði á stjórnlagaþing. Erum við ekki að kalla á eitthvað annað núna? Endurreisnin hefur ekki tekist og atvinnulífið er enn þá á brauðfótum eins og þegar ríkisstjórnin tók við. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Það er framkvæmdarvaldið sem verður að (Forseti hringir.) taka næsta skref í þessu máli. Vangaveltur um hvað aðrir (Forseti hringir.) flokkar ætla að gera eru tímaskekkja því að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) heldur að sjálfsögðu á (Forseti hringir.) málinu núna.