139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér umdeilanlegan dóm Hæstaréttar sem skiljanlega hefur verið gagnrýndur. Menn hafa velt fyrir sér forsendum þess dóms að ógilda kosningu á grundvelli annmarka á framkvæmd laga um stjórnlagaþing eða réttara sagt á framkvæmd laga um alþingiskosningar sem eru þau lög sem fara átti eftir við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Samkvæmt 120. gr. þeirra laga þurfa þeir annmarkar að hafa áhrif á úrslit kosninganna til þess að kosning verði ógilt og auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvers vegna Hæstiréttur tók ekki tillit til þessarar lagagreinar í úrskurði sínum. Á það hefur verið bent að kannski hefði gætt meira meðalhófs í úrskurðinum ef sú grein hefði verið skoðuð ítarlegar.

En við stöndum í þessum sporum núna. Við getum deilt um dóm Hæstaréttar en að sjálfsögðu förum við eftir honum, það eru leikreglurnar og við virðum leikreglurnar. Við eigum tvær leiðir í þessu máli núna. Annars vegar að skipa þann hóp sem kosinn var sem stjórnlaganefnd á vegum Alþingis, að Alþingi veiti þeim hópi það umboð sem hann átti að fá í kosningunni til að taka til starfa og sinna sínu hlutverki. Ég sé ekkert athugavert við þá tilhögun og mundi styðja þá tilhögun ef sú tillaga yrði borin hér upp. Hinn möguleikinn er sá að kjósa á ný og þá í samræmi við 115. og 121. gr. laga um kosningar til Alþingis sem eru þau lög sem eiga að gilda um kosningu til stjórnlagaþings samkvæmt lögunum sem við samþykktum í fyrra. Sú leið er að sjálfsögðu fær, hún er dýrari en hún er að sjálfsögðu mjög ásættanleg leið.

Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr í þessu máli er að formið skuli ríða niðurstöðunni á slig með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað. Ég tek undir að þau atriði sem Hæstiréttur telur að hafi verið vanhöld á kosningunni sjálfri eru allt hlutir sem skipta máli. Af þessu þurfum við að læra og það þarf að tryggja að annað eins og þetta eigi sér ekki stað. Það er líka bagalegt að við skulum standa í þeim sporum núna að málið skuli vera eiginlega verr statt en á upphafsreit. En það er ekkert um það að fást, við verðum auðvitað að fara í þá vinnu. Mér finnst mikilvægast að við veljum úr þeim tveimur leiðum (Forseti hringir.) sem ég nefndi en það að slá stjórnlagaþingið af (Forseti hringir.) er ekki valkostur að mínu mati.