139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er ekki um hvað við viljum og hvað við viljum ekki fá inn í stjórnarskrá. Það er ekki það sem við erum að ræða hér. Við erum að ræða um þá stöðu sem komin er upp vegna þess að Hæstiréttur ógilti kosningu á landsvísu í fyrsta sinn í vestrænu ríki. Það er það sem við ræðum hér.

Þegar hv. þm. Ólafur Gunnarsson segir hér að fólk segi að það vilji ekki verja fjármagni til þess að tryggja framtíð þjóðarinnar vísa ég því alfarið á bug. Lýðræðið kostar, kosningar kosta, það dregur enginn dul á það. Það sem við erum að setja út á varðandi þennan kostnað, og ég mun alltaf berjast fyrir hagsmunum skattgreiðenda í þeim efnum, er þetta 500 milljóna klúður eða jafnvel milljarðs klúður eftir því hvernig þetta endar allt saman, það eru hagsmunir skattgreiðenda sem gera ekkert til þess að bæta framtíð okkar sem þjóðar.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði í umræðu hér í gær að hægt væri að verja þeim peningum sem í þetta færu í marga brýna hluti en þó enga brýnni en þetta. Því hlýt ég að mótmæla. Ég held að konunni frá Selfossi sem eignaðist barnið sitt næstum því í sjúkrabílnum, en náði á sjúkrahúsið á Akranesi, vegna þess að búið er að loka skurðstofunni á Selfossi og á Landspítalanum var ekki pláss, þætti brýnna að halda skurðstofunni á Selfossi opinni. Ég er viss um að við gætum fundið mörg slík dæmi.

Það er algjörlega með ólíkindum að verið sé að snúa umræðunni í þennan búning. Við þurfum nefnilega ekkert endilega að fara þessa leið til að breyta stjórnarskránni en það má ekki ræða það, þá erum við sjálfstæðismenn úthrópuð sem einhverjir hagsmunagæsluaðilar. (Gripið fram í.) Hv. þm. Bjarni Benediktsson fór í ræðu sinni vel yfir vilja Sjálfstæðisflokksins til þess að breyta stjórnarskránni, sá vilji hefur alltaf verið til staðar. Okkar krafa sem við gefum aldrei afslátt á er að það verði gert rétt. Það klúður á framkvæmdinni hér sýnir að þetta var ekki rétta leiðin.

Hæstv. innanríkisráðherra gagnrýndi Hæstarétt áðan, gagnrýndi Hæstarétt fyrir að ganga gegn almannahagsmunum með því að dæma kosninguna ógilda. Ég segi: Mér þykja það meiri almannahagsmunir að það sé skýrt og klárt í okkar lýðræðisþjóðfélagi að kosningar séu alltaf hafnar yfir vafa, að það sé alltaf (Forseti hringir.) tryggt að kosningar, lýðræðislegar kosningar fari fram þannig að (Forseti hringir.) það sé enginn vafi um að framkvæmd þeirra sé í lagi.