139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Um málefni HS Orku verður ekki fjallað án samhengis við þá miklu umræðu sem fram fer í samfélaginu um orku- og auðlindamálin í heild og slæma reynslu okkar af einkavæðingaráráttu Sjálfstæðisflokksins á undangengnum áratugum. Sú umræða er ekki ný af nálinni og er skiljanlega gegnsýrð af tortryggni vegna afleiðinganna sem nú blasa við. Í einkavæðingu orkufyrirtækjanna birtast okkur að hluta til sömu persónur og leikendur og við einkavæðingu bankanna og sama blanda stjórnmála og viðskiptalegra hagsmuna. REI-málin og sporin frá einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja hræða og í Magmamálinu erum við enn að fást við afleiðingar hennar.

Ballið byrjaði þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvað að selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja fyrri hluta árs 2007. Í framhaldinu var félagið smátt og smátt fært í hendur einkaaðila, aðallega einkafyrirtækisins Geysis Green Energy sem var að mestu í eigu FL-Group. Með einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja eignaðist Geysir Green og þar með einkaaðilar bæði auðlindirnar sjálfar og almannaveiturnar. Þáverandi ríkisstjórn hafði einfaldlega láðst með öllu að búa svo um hnútana að hvorki auðlindir í opinberri eigu né náttúrleg einokun yrði einkavædd. Öllu alvarlegar var varla hægt að ganga fram og síðan þá hefur verið verkefni okkar að vinda ofan af mistökunum. Þegar Samfylkingin kom í ríkisstjórn vorið 2007 voru fyrstu mikilvægu skrefin stigin í því ferli.

Mikilvægum áfanga var síðan náð með lagasetningu 2008 þar sem sala auðlinda í opinberri eigu til einkaaðila var bönnuð og áskilið að veitustarfsemi skyldi ávallt vera að meiri hluta í opinberri eigu. Samhliða náðist samkomulag við eigendur HS Orku um að fara með auðlindirnar sem fyrirtækið nýtti í samræmi við þessi lög þótt þeim bæri ekki skylda til þess. Með þessu móti tókst að koma auðlindunum í opinbera eigu og þar eru þær nú.

Með lögunum 2008 var líka veitt heimild til að eigendur auðlinda leigðu nýtingarrétt þeirra í ákveðinn hámarkstíma gegn gjaldi. Sá hámarkstími var ákveðinn 65 ár og viðurkenna nær allir í dag að það sé of langur tími, enda var þetta pólitísk málamiðlun en ekki byggð á mati á hagrænum og umhverfislegum þáttum. Meðal núverandi stjórnarflokka er hins vegar full samstaða um að gera enn betur og stytta hámarksleigutímann enn frekar. Að því er nú unnið í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um breytt lagaumhverfi í orkugeiranum.

Hvað HS Orku varðar er staðan einfaldlega þannig að Magma Energy Sweden AB hefur með lögmætum hætti eignast nær allt hlutaféð í félaginu og ríkisstjórnin hefur ekki haft neina beina aðkomu að því máli, enda einkavæðingu félagsins fyrir löngu lokið. Hvorki nefnd um erlenda fjárfestingu né sérstök nefnd ríkisstjórnarinnar um orku og auðlindamál undir formennsku Hjördísar Hákonardóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, taldi gerlegt fyrir ríkisstjórnina að grípa inn í þau viðskipti.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að vinda ofan af einkavæðingu orkufyrirtækjanna og tryggja forræði opinberra aðila á auðlindunum og nýtingu þeirra í þágu þjóðarinnar eru nú að hefjast viðræður við Magma Energy um kauprétt opinberra aðila og annarra íslenskra aðila og forkaupsrétt ríkisins á hlutum í HS Orku. Auðlindirnar eru hins vegar að mestu í eigu Reykjanesbæjar og Grindavíkur en ríkisstjórnin hefur tekið boði Reykjanesbæjar um að ræða kaup á þeim. (Gripið fram í.)

Viðræður um styttingu leigutíma nýtingarréttar í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar eru einnig að hefjast við alla hagsmunaaðila. Eignarnám er því ekki á dagskrá stjórnvalda samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar, enda ætti öllum að vera ljóst að hægt er að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í orku- og auðlindamálum með öðrum hætti. Það er svo annað mál að enginn ábyrgur stjórnmálamaður útilokar eignarnám sem möguleg viðbrögð komi sú staða upp að skilgreindir almannahagsmunir séu í húfi sem ekki verða varðir eftir öðrum leiðum. Eðli máls samkvæmt væri slíkt nauðvörn fyrir almannahag og ég vænti þess að hvorki ég né málshefjandi útilokum slíkt fyrir fram.

Þegar að er gáð er algjör samhljómur með stefnu þessarar ríkisstjórnar og þeirri meginkröfu þjóðarinnar að auðlindir lands og sjávar skuli ævinlega vera í eigu þjóðarinnar og að tryggt sé að arðurinn af nýtingu þeirra renni til hennar. Á þetta benti ég þegar okkur voru afhentar undirskriftir nær 50 þúsund Íslendinga um auðlindir í þjóðareign. Við munum verða við þeirri áskorun eins og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum málum sýna svo skýrt. (Gripið fram í.)