139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég er engu nær um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra. Það þarf að vinda ofan af einkavæðingu auðlindanna með færum leiðum. Eru auðlindirnar sem um er að tefla í eigu einkaaðila? Var hæstv. forsætisráðherra ekki ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem setti lög árið 2007 um að þessar auðlindir skyldu vera í opinberri eigu? Eru sveitarfélögin ekki opinberir aðilar? Hverjir eru opinberir aðilar að mati hæstv. forsætisráðherra? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum?

Hæstv. forsætisráðherra segir að enginn ábyrgur stjórnmálamaður útiloki eignarnám á fyrirtækjum. Er það stefna íslensks ríkisvalds núna að það séu rök fyrir því þegar óskilgreindir hagsmunir eru undir, vegna þess að auðlindirnar sem hæstv. ráðherra ruglar stöðugt inn í þessa umræðu eru ekki á forræði þessara fyrirtækja? Engu að síður er hér farið úr og í með það að eignarnám sé víst í stöðunni, að þjóðnýting einkafyrirtækja sé í stöðunni, að það sé staðan hér á Íslandi að mönnum finnist bara allt í lagi að gera það vegna þess að þeim líki ekki eigendur fyrirtækjanna eða þeim líkar ekki sú starfsemi sem fyrirtækin eru í. Það er alveg nauðsynlegt fyrir hæstv. forsætisráðherra að skýra almennilega út hvað það er sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera. Það liggur fyrir að hún hefur fengið mikil ámæli og mikla gagnrýni með réttu fyrir það verklag sem haft hefur verið í þessu blessaða Magmamáli. Svona er ekki hægt að halda á málum þegar jafnmikilvægir hagsmunir eru undir og það verður auðvitað að fara rétt með.

Hvernig stendur á því að því er stöðugt haldið hér fram að þessar auðlindir séu á forræði einkaaðila? Hvernig stendur á því að menn vilja ekki fallast á það og fara rétt með (Gripið fram í.) að þetta er í eigu opinberra aðila. Hvernig er hægt að eiga orðastað (Forseti hringir.) við fólk sem neitar að fara rétt með staðreyndir?