139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hvernig byggjum við upp atvinnulíf í þessu landi? Eitt af því mikilsverðasta er að ríkisvaldið hafi skýra stefnu. En hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum HS Orku og Magma Energy? Hver er stefnan varðandi orkuauðlindirnar í heild sinni, sjávarauðlindina eða vatnsauðlindina? Aðra stundina tala samfylkingarráðherrar og þingmenn eins og hæstv. iðnaðarráðherra og hv. varaformaður viðskiptanefndar um að núverandi eignarhald Magma á HS Orku og nýtingarsamningurinn sé stefna ríkisstjórnarinnar. Í annan tíma heyrist frá öðrum þingmönnum Samfylkingar það sama og flestir ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna virðast telja eðlilegt, þ.e. eignarnám og opinber eign á nýtingarfyrirtækinu. Sem sagt, annars vegar þjóðnýting í anda Hugos Chávez og Venesúela og hins vegar hægri kratismi sem þekkist víða um hinn vestræna heim. Svo eru nokkrir einhvers staðar þar mitt á milli. Eigum við að taka upp bæjarútgerðir aftur? Eignarnám á hita- og vatnsveitum í landinu? Ja, hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Veit það einhver? Eftir ræður hæstv. forsætisráðherra og umhverfisráðherra erum við engu nær.

Hver er stefna ríkisstjórnar sem kennir sig við norrænt velferðarríki?

Virðulegi forseti. Á Norðurlöndum þekkist bæði að auðlindir séu í almannaeigu og einkaeigu. Þannig eru 2/3 hlutar vatnsauðlinda í Danmörku í einkaeigu. Þar setja menn hins vegar almenn lög um nýtingu, um auðlindarentu, arð og fleira. Það þykir skynsamlegt þar. Alls staðar á Norðurlöndunum eru stóru orkufyrirtækin í blandaðri eigu opinberra og einkaaðila, fyrirtæki eins og Norsk Hydro, Statoil, Dansk Naturgas o.fl. Þar þykir skynsamlegt að láta einkaaðila um áhættusama nýtingarhlutann en setja almennar reglur um hámarksgjaldskrá, hæfilegan samningstíma, 20 eða 30 ár, arð og rentu almennings. Hérlendis vantar alla skynsemi, enda er hér ýmist öfgavinstristefna Vinstri grænna eða hentistefna Samfylkingar. (Forseti hringir.) Það er ekki leiðin fram á við, það er ekki leið skynseminnar. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Kjarni málsins.)