139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um mikilvæg mál sem varða auðlindir þjóðarinnar. Ég tek undir með hæstv. umhverfisráðherra, þessi mál þarf að setja í pólitískt samhengi. Markmið ríkisstjórnarinnar kom fram í yfirlýsingu frá henni í fyrrasumar um að vinda ofan af einkavæðingu í orkuvinnslu (Gripið fram í.) þannig að við erum bæði að tala um auðlindirnar sjálfar og orkuvinnsluna, að sjálfsögðu.

Ég hef tekið þátt í starfi starfshóps á vegum ríkisstjórnarinnar um lagaramma í orkuvinnslu. Þar höfum við rætt um báða þessa þætti. Ég held að almennt megi segja að það sé nokkuð þokkaleg samstaða um það meðal pólitískra flokka, og örugglega almennt í þjóðfélaginu öllu, að auðlindirnar eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Það er mikilvægt að það sé algerlega afdráttarlaust, og ákvæði um slíkt þarf að tryggja inn í stjórnarskrána.

Það eru skiptari skoðanir um orkuvinnsluna sjálfa. Það er rétt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti hér á, þegar nýtingarsamningar eru til svo langs tíma eins og raun ber vitni, til 65 ára með framlengingarmöguleika upp á önnur 65 ár, allt að 130 árum, er það í raun einkaeign þeirra sem hafa þá samninga í hendi, kannski samt ekki að nafninu til. Það er þetta sem þarf að vinda ofan af.

Í þeirri vinnu sem ég hef tekið þátt í er rétt að það er sagt að eignarnám sé ekki vænlegur fyrsti kostur, en eins og hæstv. forsætisráðherra sagði útiloka menn það að sjálfsögðu ekki fyrir fram. Aðalatriðið er að stefnan og markmiðið náist um samfélagslega eign og samfélagslegan arð af rekstri og nýtingu auðlindanna. Það er það sem skiptir mestu máli og það er það sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) vinnur að. Ég held að formaður Framsóknarflokksins ætti að kynna sér betur (Forseti hringir.) aðdragandann að þessu máli öllu vegna þess að hann fór rangt með í nánast öllum atriðum (Forseti hringir.) þegar hann talaði um aðdragandann að þessu máli. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn …) [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum. Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.)