139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

HS Orka, stefna og stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar í málinu.

[15:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vonandi er það rétt hjá síðasta ræðumanni að vinstri menn séu að hafa betur að því er varðar undirtökin í því hvernig farið er með auðlindirnar í landinu. Hér er spurt um stefnu ríkisstjórnarinnar í orku- og auðlindamálum. Hún er alveg skýr. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í.) Markmiðið er að tryggja samfélagslegt forræði á auðlindum og orkufyrirtækjum. (Gripið fram í.) Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Þetta var skýrt (Gripið fram í.) rætt í ríkisstjórninni fyrir nokkrum dögum þar sem m.a. var farið yfir það og lögð drög að því hvernig hægt væri að vinda ofan af eignarhaldinu á HS Orku. Þar var iðnaðarráðherra falið í samráði við fjármálaráðherra að taka upp viðræður um það mál við HS Orku, eigendur félagsins, og sveitarfélögin þar sem markmiðið var að stytta leigutímann á nýtingarrétti og breyta eignarhaldinu. Það var alveg skýrt.

Í annan stað var samþykkt að lagt yrði fram frumvarp þar sem hámarksleigutími á nýtingarrétti vatns- og orkuauðlinda yrði styttur úr þeim 65 árum sem nú eru skilgreind í lögum. Það er alveg klárt. Það liggur fyrir og á ekki að hafa farið fram hjá neinum að undirbúningur er hafinn á mótun heildstæðrar auðlindastefnu með skilgreiningu á lykilmarkmiðum hennar og almannahagsmunum sem hún á að tryggja.

Síðan frábið ég mér að lokum þann útúrsnúning sem hv. síðasti þingmaður og frummælandi þessarar umræðu heldur fram, að ég tali hér fyrir eignarnámi. Við erum að tala fyrir öðrum leiðum eins og ég hef nefnt en auðvitað er ekki hægt að útiloka eignarnám sem möguleg viðbrögð ef sú staða kemur upp að almannahagsmunir verða í húfi og það sé nauðvörn þeirra vegna. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji ekki hafa þann kost í lögum að eignarnám geti verið réttlætanlegt (Forseti hringir.) við sérstakar aðstæður þegar almannahagsmunir eru í húfi. En við erum að fara aðra leið eins og hér hefur komið fram.