139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir ágæta skýrslu og að skýra þinginu frá því í hvaða farvegi þetta góða mál er. Ég held að það hafi verið afar heppilegt af þinginu að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og reyna að setja svolítinn fókus á þann sjónarvinkil sem upplýsingastreymi sem fer um allan heiminn er í og þá frjálsu fjölmiðlun sem við viljum geta búið við, ekki bara hér á landi heldur um heim allan og styrkja þar af leiðandi bæði málfrelsi og lýðræði í heiminum, opna fyrir þann möguleika. Ég held að þetta hafi verið afar gott skref sem við tókum og mér heyrist að hæstv. ráðherra sé á réttri leið með verkið og er því mjög sáttur við að haldið verði áfram á þeirri braut. Þau varnaðarorð voru uppi að ef við værum að opna með þessum hætti sérstaklega fyrir varðveislu gagna á Íslandi eða beina kastljósinu að okkur þá værum við að auka hættu á því að hér kæmu kannski hlutir sem við vildum alls ekki að væru varðveittir yfir höfuð. En ég heyri að gætt hefur verið að öryggissjónarmiðum. Ég held að það eitt hafi verið til þess að við fórum í þá vinnu hér á landi að velta fyrir okkur hvernig við getum varið öryggi upplýsinga, til að mynda tekið á því sem nauðsynlegt er ef við ætlum að fara að setja upp gagnaver í stórum stíl hvaða reglur eigi að gilda um þau, þá hafi þessi þingsályktunartillaga skilað miklu. Hún hefur auk þess eins og fram hefur komið, held ég, kastað jákvæðu ljósi á hvað við Íslendingar, þótt lítil þjóð sé, getum áorkað í heimsögulegu tilliti ef við viljum beita okkur.

Ég vil líka nefna og taka undir þau tilmæli sem hæstv. ráðherra var með í sambandi við kostnaðarvitund og kostnaðarreikning. Ég hef oft og iðulega talað fyrir því. Stjórnarfrumvörpum fylgir gjarnan yfirlit eða greinargerð fjármálaráðuneytisins um kostnað ríkisins. Aftur á móti hefur mjög skort á það þegar verið er að velta byrðum yfir t.d. á sveitarfélögin að gerð hafi verið sambærileg kostnaðargreining gagnvart þeim, en það er ákaflega brýnt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er auðvitað eðlilegt að frumvörp þingmanna og eins þingsályktunartillögur verði kostnaðarmetnar svo við vitum hvað við erum að fara út í.

Varðandi það að fjármagn þurfi til að geta haldið áfram með málið þá minntist hæstv. ráðherra á að til væri eitthvað sem væri ótilgreint í fjárlögum, mig minnir að það hafi verið um 6 milljarðar þannig að af einhverju er þar að taka. Ég held að ríkisstjórnin ætti aðeins að fjalla um hvort það væri ekki skynsamlegt og koma þá með tillögur til þingsins, til fjárlaganefndar, að eðlilegt væri að veita fjármagn til þessara nauðsynlegu hluta.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja umræðuna um þetta í dag. Ég vildi fyrst og fremst koma hingað upp og lýsa ánægju minni yfir því að verið er að vinna rétt að þessu máli. Ég held að það skref sem við tókum hafi verið rétt og muni á endanum skila í það minnsta því að við erum betur undirbúin undir upplýsingasamfélagið og ógnir þess sem hugsanlega geta leynst þar en við getum kannski líka tekið þátt í að vera fyrirmyndir annarra í heiminum.