139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:24]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. menntamálaráðherra um svokallaðan Imma. Þetta er mjög mikilvægt og merkt mál. Þetta einstaka mál hefur komið Íslandi á heimskortið hvað varðar upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Við erum komin með ansi merkilega stöðu og mikið forskot í þessum málum.

Mig langar að rifja upp að í síðustu viku eða þarsíðustu viku þegar Túnisbúar fengu almennan aðgang að internetinu, sem þeir höfðu aldrei haft fyrr, sameinuðust þeir um og tókst að steypa áratuga einræðisstjórn í landinu. Það var vegna aukinna samskiptamöguleika og aukinna upplýsinga sem þeir höfðu aldrei haft aðgang að áður. Þessi bylgja virðist vera að breiða úr sér um allan þann heim sem mörg Evrópulönd óttast svo mjög. Það er krafa um breytta stjórnarhætti og lýðræði í Norður-Afríku og Miðausturlöndum vegna m.a. þess að fólk hefur meiri aðgang að upplýsingum og á auðveldara með samskipti. Imminn snýst um þetta.

Það er ekki neitt smáræði að í gær var sett á fót stofnun um hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem heitir IMMI-stofnunin og er gaman að hugsa til þess að hv. þingmaður og anarkisti, Birgitta Jónsdóttir, er orðin að stofnun en það er önnur saga.

Hér er verið að tölvuvæða nánast allt íslenskt menningarlíf, ef svo fer sem horfir, og gefa öllum heiminum aðgang að því endurgjaldslaust. Þetta þykja gríðarlega merkileg tíðindi í upplýsingamiðlun úti um allan hinn vestræna heim.

Nauðsynin á þessu Immamáli sem fram kemur í þingsályktunartillögunni að Ísland verði að einhvers konar griðastað fyrir upplýsinga- og tjáningarfrelsi skiptir mjög miklu því að í sumum nágrannalöndum, sérstaklega í Bretlandi, er mjög algengt að stjórnvöld múlbindi fjölmiðla hvað varðar fréttaflutning þeirra. Þau gera það meira að segja með þeim hætti að fjölmiðlarnir mega ekki einu sinni greina frá því að þeir megi ekki segja fréttina. Það er því komið upp umhverfi í fjölmiðlum, meira að segja í því góða landi Bretlandi, sem er algerlega óásættanlegt frá lýðræðislegu sjónarmiði séð. Slíkt umhverfi má aldrei verða til og við verðum að gera það sem við getum til að fara fram hjá því. Erlendis hafa menn sagt að þeir mundu koma með starfsemi sína til Íslands. Ísland yrði einhvers konar aflandseyjar fyrir upplýsingar, m.a. vonandi Google, Facebook, Twitter utan við hinn langa arm bandaríska dómsmálaráðuneytisins sem vill komast í einkatölvupósta hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og allra þeirra á Íslandi sem gagnrýna bandarísk stjórnvöld.

Við skulum athuga að það er ekki bara Hreyfingin sem á samskipti á Google sín á milli, á Google-póstlistum. Það er fjöldinn allur af samtökum á Íslandi sem nota þessi samskiptaforrit sem bandaríska stjórnin getur, án þess að þurfa að gera grein fyrir því, krafist aðgangs að. Ég þekki ekki samskiptamáta annarra þingflokka á þingi eða stjórnmálahreyfinga á Íslandi en það kæmi mér ekki á óvart að víða í grasrótum noti menn samskiptaforritið Google til að útbúa póstlista. Allt þetta er undirlagt hinum langa armi bandarískra yfirvalda ef þau svo kjósa. Flyttist þessi starfsemi t.d. til Íslands gætum við einfaldlega markað okkur algera sérstöðu á alþjóðavettvangi hvað svona lagað varðar. Að sjálfsögðu þarf að vanda til verka og eins og fram hefur komið í skýrslu menntamálaráðherra er verið að gera það í menntamálaráðuneytinu. Það er margvísleg löggjöf sem þarf að breyta. Til að vinnan geti haldið áfram hnökralaust þarf fjármagn í verkefnið og það er eitthvað sem við munum að sjálfsögðu taka upp sem fyrst og reyna að koma því að í fjáraukalögum. Þetta er eitthvað sem mönnum sást yfir en það má athuga það við breytingu á þingsköpum sem verið er að fara út í á næstunni að setja þetta ákvæði inn. Þegar flutt eru þingmál sé jafnframt gert ráð fyrir því að einhverjar hugmyndir fylgi með um fjárveitingu fyrir þau og hvaðan þeir fjármunir eigi að koma.

Í frumvörpum sem koma frá stjórnvöldum fylgir iðulega umsögn fjármálaráðuneytis um hvað þetta muni kosta ríkissjóð og skattgreiðendur. Því er ekki óeðlilegt að útbúin verði aðstaða fyrir þingmenn utan ríkisstjórnarinnar eða í minni hlutanum til að þeir geti þá látið meta hvað það muni hugsanlega kosta, (BirgJ: Líka í meiri hlutanum.) já og líka þingmenn í meiri hlutanum, verði þingsályktunartillögur eða frumvörp þeirra að lögum eða nái fram að ganga.

Með þessum Imma er verið að brjóta í blað, vonandi, í þessum heimi upplýsinga- og tjáningarfrelsis og það er gott til þess að vita. Ég vil líka hvetja aðra þingmenn og þingheim til að veita athygli þeirri stofnun sem var sett á fót í gær, UM, Upplýsinga- og málfrelsismiðstöðin held ég að hún eigi að heita. Þar verða tveir starfsmenn til að byrja með sem munu hafa yfirumsjón með því að koma allri íslenskri menningu sem hægt er að tölvuvæða í beint ókeypis samband um allan heim. Það gleður mig að stefnuskrá Hreyfingarinnar muni þá væntanlega rata inn í þann gagnabanka og vera fyrirmynd fyrir lýðræðisumbætur hingað og þangað. En það er engin leið að gera sér grein fyrir hverju slíkt fyrirbæri gæti áorkað, ekki frekar en við gátum engan veginn gert okkur grein fyrir því á sínum tíma hverju internetið fengi áorkað eða hverju farsímar fengu áorkað.

Ég fagna þessari skýrslu og framgangi málsins. Vonandi gengur hratt fyrir sig að breyta þeim lögum sem þarf að breyta og að þeim örfáu úrtölumönnum sem heyrst hefur í varðandi málið verði svarað á viðeigandi hátt. Það virðist vera svo í þessu máli sem svo mörgum öðrum að það eru einhverjir sem telja á sig hallað einhverra hluta vegna. En það er þá væntanlega lítið mál að útskýra fyrir viðkomandi út á hvað þetta gengur því þetta er eitt af þeim málum sem þingið greiddi atkvæði með 62:1 óákveðnu og fínt að það komst í gegn.