139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langaði að leiðrétta einn smámisskilning. IMMI-stofnunin mun ekki sjá um að koma bókasafninu á netið en hún mun aftur á móti vinna í því að kortleggja og aðstoða önnur lönd, m.a. við að koma á sambærilegri löggjöf hjá sér. Jafnframt er verið að stofna aðra mjög merkilega stofnun á næstu dögum sem mun heita Stofnun Evu Joly. Það er markmið IMMI-stofnunarinnar og Stofnunar Evu Joly að vinna saman af því að það er mjög margt sem er báðum þessum stofnunum mikilvægt og jafnframt er t.d. möguleiki á að þær hafi umsjón með alþjóðaverðlaununum sameiginlega sem lagt er til að við komum á fót.

Ég hef mjög sterklega á tilfinningunni og finn það alls staðar þar sem ég hef náð að útskýra fyrir fólki um hvað þetta fjallar að íslenskir fjölmiðlar hafa haft mjög lítinn áhuga á þessu þangað til núna, en allt hefur jú sinn tíma. Ég hef t.d. farið í fleiri viðtöl við ítölsku pressuna en þá íslensku. En það horfir allt til betri vegar og eins og ég segi hefur allt sinn tíma. Í raun og veru má ég þakka Twitter eða bandarískum dómsmálayfirvöldum fyrir að hafa vakið athygli á Immanum.

Mér finnst mjög spennandi tími fram undan hjá okkur og mikilvægt að við skoðum líka hvað gengur vel og að hverju við getum unnið saman þverpólitískt. Þetta er akkúrat mál sem við getum unnið þverpólitískt út af því að það getur enginn verið á móti því að höfum upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Það getur enginn verið á móti því að koma bókunum okkar í rafrænt form þannig að þær séu aðgengilegar fyrir alla Íslendinga. Það má því eiginlega segja að vinna mín í kringum þetta hafi bjargað mér úr bölmóðnum. Ég hvet aðra þingmenn til þess að koma meira að þessu máli og er öllum velkomið að koma og kynna sér það betur þegar við opnum skrifstofu okkar fljótlega.