139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[17:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um farþegagjald og gistináttagjald. Þetta er 359. mál á þskj. 459.

Með þessu frumvarpi er lagt til að tekið verði upp gistináttagjald og farþegagjald eins og ráða má af heiti frumvarpsins. Tekjum af þessum gjöldum er ætlað að verja til uppbyggingar, viðhalds og verndunar fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Það er öllum ljóst, held ég, sem til þessara mála þekkja að mjög brýnt er að ráðast í úrbætur hvað varðar aðgengi, aðbúnað og verndun viðkvæmrar náttúru á þeim stöðum sem um er að ræða.

Spár um fjölda ferðamanna á komandi missirum benda mjög eindregið til þess að þeim muni fjölga verulega og umferðin slá öll fyrri met. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni því að við gleðjumst yfir góðum viðgangi ferðaþjónustunnar en það er hins vegar jafnljóst að forsenda þess að við getum haldið áfram að taka á móti ferðamönnum og sjálf umgengist okkar eigið land sómasamlega er að úrbætur verði gerðar á þessu sviði. Það væri ákaflega dapurlegt ef við lentum í því að fólk sem hingað kæmi eða við sjálf þegar við værum að ferðast um til að njóta íslenskrar náttúru yrðum fyrir vonbrigðum með þá upplifum vegna þess að umhverfið væri sýnilega að drabbast niður og umbúnaður þess ekki þannig að fólk gæti heimsótt og skoðað vinsælar náttúruperlur án þess að ástandið væri bágborið. Ég vitna m.a. í þessum efnum til nýlegrar skýrslu þar sem ástandið er kortlagt á u.þ.b. tíu fjölsóttustu eða viðkvæmustu stöðunum og má segja að ansi mikið sé um rauðar merkingar hvað varðar ástand á mörgum af þeim stöðum sem laða mjög að sér ferðamenn.

Reiknað er með því að gjöld þessi, eins og upp er lagt með, skili ríkissjóði um 400 millj. kr. eða af þeim innheimtist um 400 millj. kr. í tekjur árlega. Þar af er reiknað með að farþegagjaldið komi til með að skila rúmlega helmingi eða um 216 millj. kr. og gistináttagjaldið um 184 millj. kr. Um það er samkomulag og gengið út frá því að þær tekjur sem innheimtast samkvæmt lögunum muni útdeilast að 3/5 hlutum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, en hæstv. iðnaðarráðherra hefur þegar mælt fyrir því frumvarpi, og það sem eftir stendur eða um 2/5 hlutar renni til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði.

Hvað farþegagjaldið varðar er lagt til að það leggist á hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum og taki mið af því hversu löng ferðin er. Tillaga frumvarpsins er að farþegagjald byrji í 65 kr. fyrir ferðir sem eru 500 km eða styttri en hækki svo smám saman með aukinni vegalengd upp í 390 kr. fyrir hvern farþega vegna ferða sem eru 4.000 km eða lengri.

Gistináttagjald er lagt á vegna hvers selds sólarhrings í gistingu fyrir hvern einstakling. Gert er ráð fyrir að innheimta og álagning gjaldsins verði með sama hætti og virðisaukaskattur. Lagt er til að gistináttagjald nemi 100 kr. fyrir hverja gistinótt á hótelum, en 50 kr. fyrir hverja gistinótt á annars konar gististöðum. Það er rétt að fram komi að eftir að frumvarpið leit dagsins ljós hef ég fengið ábendingar frá fagaðilum um að hugsanlega þurfi að einfalda til hægðarauka innheimtu gjaldsins, þ.e. að menn reyni að hafa sanngjarna afslætti eða gjaldfrelsi fyrir t.d. börn og fleiri en hugsanlega kann það að vera flókið fyrir innheimtuaðilana. Ég mæli með því að hv. nefnd fari yfir það sérstaklega hvort unnt er að einfalda framkvæmdina fyrir þá sem við hana eiga að búa en í raun er hún einföld hvað varðar innheimtuna sjálfa á gistináttagjaldinu sem er í gegnum virðisaukaskattinn. Hins vegar er gert ráð fyrir því að rekstraraðilar flugvalla innheimti gjaldið vegna flugfarþega og það ætti sömuleiðis að vera handhægt því að sambærileg eða önnur gjöld eru tekin með þeim hætti, en tollstjóri innheimti vegna farþegaskipa í millilandaferðum. Lagt er til að ferjur og flóabátar sem njóta styrks samkvæmt vegalögum og er ætlað að koma í stað vegasambands verði undanþegin gjaldinu.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar þar sem um innheimtu á tekjum samkvæmt lögum er að ræða og til 2. umr. að aflokinni þessari.