139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé í þriðja sinn sem ég kem hingað upp í dag og hrósa ríkisstjórninni, en það er alltaf verið að tala um að við gerum ekkert annað en að tala niður það sem hún gerir. Hér er meira að segja verið að tala um skattlagningu eða þjónustugjöld og þætti einhverjum kannski nóg um. En þetta er ein af þeim fáu skattahækkunum eða þjónustugjaldsálagningum sem ég tel að sé til bóta og held að það hafi verið löngu tímabært að menn þyrðu að taka það skref að leggja gjald á þá sem koma sem ferðamenn til landsins til að standa undir ýmsum þeim aðgerðum sem vissulega er þörf á í náttúrunni, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu.

Staðirnir, þó fjölsóttir séu, eru ekki með þeim hætti að þeir standi undir því að sérstök gjaldtaka sé á staðnum. Spár eru um að ferðamönnum fjölgi hér innan fárra ára í eina milljón þannig að þetta gæti orðið þokkalegur tekjustofn. Ég er mjög hlynntur því að honum sé haldið í hófi, að upphæðirnar séu ekki of háar. Ég held að það væri mjög til bóta að farin yrði þessi blandaða leið, annars vegar með farþegagjaldi og hins vegar með gistináttagjaldi, en ekki einvörðungu gistináttagjald eins og til stóð upphaflega.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í farþegagjöldin. Hann kom aðeins inn á það sjálfur í framsögu sinni að gistináttagjaldið yrði hugsanlega einfaldað, þ.e. gjaldskráin, og farþegagjaldið yrði sett upp með mismunandi köflum fyrir mismunandi fjarlægðir. Ég velti fyrir mér hvort það hefði ekki mátt hafa það einfaldara, í færri flokkum og til að mynda væri gjaldið í neðsta flokknum 0 kr. en ekki 65 kr.