139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[17:19]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að ræða frumvarpið sem ég tel um margt merkilegt. Þetta er aðferð eða tilraun að innheimta gjald fyrir þá sem nýta sér náttúruauðlindina Ísland. Fallega náttúran sem við höfum og ferðamenn sækja í en njóta endurgjaldslaust er auðlind. Margar aðrar þjóðir taka gjald af sínum náttúruperlum.

Við í Hreyfingunni höfum lagt til sem tekjustofn fyrir ríkissjóð að þessi auðlind verði skattlögð í formi gistináttagjalds til að afla tekna fyrir ríkissjóð. Við höfum tekið þann pól í hæðina að það sé eðlilegt að þeir sem hagnist á náttúrunni greiði skattinn en ekki verði tekin upp sú aðferð sem margir hafa talað fyrir að rukkaður verði aðgangseyrir að fögrum stöðum á Ísland. Það var að heyra í umræðunni um daginn þegar hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, held ég að það hafi heitið, að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til að í staðinn fyrir gjaldið yrði innheimtur aðgangseyrir. Ég verð að lýsa því aftur yfir að hugmyndin að meina fólki að skoða Þingvelli eða aðra fallega staði án þess að greiða fyrir það gjald er í raun fáránleg. Þessi hugmynd um aðgangseyri að ferðamannastöðum sem oft hefur verið uppi í umræðunni er ópraktísk í eðli sínu. Ef menn velta fyrir sér landfræðilegum staðreyndum þá mundi gjaldið aldrei standa undir kostnaði sem fælist í því að að girða t.d. af Þingvelli, setja upp hlið og hefta bátaumferð.

Athugasemdirnar sem ég hef við frumvarpið eru fyrst og fremst þær að ég tel það of flókið. Ein meginreglan við skattlagningu er að hún þarf að vera gegnsæ og einföld. Það er verið að fara fjallabaksleiðir með málið. Farþegagjaldið sem talað er um í 2. gr. finnst mér sérkennilegt. Lengd ferða með 500 kílómetra millibili hækkar um tugi prósenta. Innheimta á farþegagjaldinu verður snúin. Ég leyfi mér að efast um að tekjurnar munu nokkurn tíma standa undir þeim kostnaði sem fylgir því að innheimta það og hafa eftirlit með innheimtunni. Ég hefði frekar kosið og mun leggja til að í staðinn verði tekið upp örlítið hærra gistináttagjald. Hér nemur gistináttagjaldið 100 kr. fyrir hverja nótt. Það mundi einfalda málið mikið ef gjaldið yrði hækkað og farþegagjaldið fellt út. Gistináttagjaldið þarf að vísu að vera þannig að það bitni ekki á barnmörgum fjölskyldum. Það mætti því ekki taka gildi fyrr en einstaklingar væru orðnir 16 ára þannig að ekki yrðir enn þá dýrara fyrir fólki með börn að ferðast um landið ef borga þyrfti fullt gjald. Það er gert ráð fyrir að einstaklingar á aldrinum tveggja til tólf ára greiði helming farþegagjaldsins, þau eru líka undanþegin gistináttagjaldinu og greiða helminginn af því, einungis á að rukka inn 50 kr. fyrir hverja gistinótt. Þetta er, ég veit ekki hvort þetta er rétta orðið sem er ekki fallegt, sparðatíningur. Ég er hræddur um að svona lág gjöld og svona flókin innheimta fyrir farþegagjaldið muni ekki ganga upp sem tekjustofn og því muni ekki innheimtast eins mikið og menn gera ráð fyrir.

Ég hvet og skora á hæstv. fjármálaráðherra að velta fyrir sér að taka undir breytingartillögur um að einfalda þetta, afnema farþegagjaldið og taka það frekar sem gistináttagjald og hafa það gjaldfrítt fyrir börn upp að 16 ára aldri.

Það er líka gert ráð fyrir að 60% af tekjunum fari til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en einungis 40% í þjóðgarða og friðlýst svæði. Mér fannst vanta frekari skilgreiningar á því í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra hvað Framkvæmdasjóður ferðamannastaða á að gera. Það er að mínu viti mikilvægara að þjóðgarðar og friðlýst svæði séu vernduð eins og mögulegt er fyrir of miklum ágangi en þjónustuaðilar í ferðaþjónustunni taki það upp í hvað fjármunirnir eigi að fara.

Að öðru leyti fagna ég framlagningu frumvarpsins og vona að það fái góða og skilmerkilega leið í gegnum þingið.