139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins.

[15:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Á síðasta ári starfaði nefnd, svokölluð sáttanefnd um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar á Íslandi. Nefndin skilaði frá sér áliti þar sem allur meginþorri nefndarmanna komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fara svokallaða samningaleið við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í störfum sínum leitaði nefndin ráðgjafar víða, m.a. hjá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Þeir sérfræðingar sem starfa þar skiluðu nefndinni skýrslu sem gengur í grófum dráttum út á það að verði aflaheimildirnar innkallaðar án þess að um leið verði gerðir tímabundnir samningar til langs tíma sé stór hætta á því að allt að helmingur allra sjávarútvegsfyrirtækja í landinu fari á hausinn.

Samfylkingin var með flokksstjórnarfund um helgina og verður ekki annað lesið úr þeirri ályktun sem þar var samþykkt en að Samfylkingin styðji ekki niðurstöðu sáttanefndar um sjávarútvegsmál frá síðasta ári sem ég hef vitnað til, þ.e. það sé ekki stuðningur í Samfylkingunni við að fara þá leið heldur er ítrekuð fyrri afstaða Samfylkingarinnar um að fara þá leið sem sérfræðingarnir fyrir norðan telja að geti valdið gjaldþroti allt að helmings allra sjávarútvegsfyrirtækja í landinu.

Við þessu hefur hv. þm. Björn Valur Gíslason nú brugðist. Hann bendir á að mun skynsamlegra væri að fara samningaleiðina. Þetta veldur enn og aftur óvissu um það hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessu efni. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra sem er formaður Vinstri grænna að gera grein fyrir því hér (Forseti hringir.) hvort hann styðji það að samningaleiðin verði farin eða hvort hann telji hættandi á að fara leið Samfylkingarinnar í þessu máli, þá leið sem virðist (Forseti hringir.) hafa verið samþykkt á flokksstjórnarfundinum um helgina.