139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

málefni íslenskra námsmanna í Svíþjóð.

[15:12]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég skal hreinskilnislega svara að ég hef ekki kynnt mér málið ítarlega. Ég hef aðeins vitað að unnið er að þessu á „embættismannalevel“ enn þá og að beðið er eftir úrskurði frá þessum svokallaða „forvaltningsrätten“ í Svíþjóð þar sem þeir munu svara þeim kærum sem komið hafa fram frá íslenskum námsmönnum varðandi þetta mál.

Ef embættismönnum frá Sjúkratryggingum Íslands, velferðarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu tekst ekki að leysa þetta mál munum við auðvitað taka það upp á pólitískum vettvangi. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir veit manna best sem hefur unnið afar mikið og vel í norrænu samstarfi munum við auðvitað aldrei sætta okkur við að við verðum sett til hliðar í þessu áratuga gamla samstarfi. Við höfum gætt þess í sambandi við sænska námsmenn á Íslandi að þeir njóti réttar, svo sem fæðingarstyrks og annarra réttinda, samkvæmt reglum sem hér hafa gilt.

Það eina sem ég get svarað á þessu stigi er að ég mun auðvitað setja mig betur inn í málið í framhaldi af þessari fyrirspurn og tryggja að við séum tilbúin til að taka upp pólitískar viðræður við Svíana í Norðurlandasamstarfinu og á „ráðherraplani“ til að reyna að fá skýringar á því hvað hefur farið úrskeiðis ef okkar fólk nýtur ekki þeirra réttinda sem við reiknum með í norrænu samstarfi.