139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

málefni íslenskra námsmanna í Svíþjóð.

[15:15]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að hvetja mig til dáða í þessu. Auðvitað mun ég setja mig sérstaklega inn í málið og vera tilbúinn með vinnu þannig að þetta verði tekið upp á „ráðherralevel“ eins og ég sagði áðan ef á þarf að halda.

Eftir að ég kom í þetta ráðuneyti hef ég lagt mig fram um að rækta samstarfið á Norðurlöndunum. Mér finnst mjög mikilvægt að við höldum því samstarfi, hef sótt þar fundi um bæði jafnréttismál og atvinnumál og hef þar af leiðandi haft tækifæri til að hitta kollega mína á Norðurlöndunum. Mér finnst skipta mjög miklu máli að við tryggjum að þetta samstarf sé í lagi. Ég hef oft haft skömm á því að við Íslendingar höfum stundum dregið lappirnar í slíku samstarfi og borið fyrir okkur smæð landsins í sambandi við ýmsar kröfur sem gerðar hafa verið, en þar á höfum við gert verulegar úrbætur og við munum að sjálfsögðu fylgjast með því að þetta samstarf haldi (Forseti hringir.) sem er afar mikilvægt fyrir okkur.