139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

ástandið í Egyptalandi.

[15:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmenn hafa stundum gagnrýnt mig fyrir það að ég hef ekki viljað fara þá leið að gefa opinberar yfirlýsingar um atburði sem gerast. Ég geri það mjög sjaldan. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hálfgerð sýndarmennska í því fólgin. Ég hef valið þá leið að ef hlutir gerast í heiminum sem þingmönnum finnst þess virði að séu teknir hér upp og ræddir þá hef ég jafnan svarað þeim undanbragðalaust. En ég fer heldur þá leið að spara yfirlýsingar, jafnvel þó að hægt sé að færa rök fyrir því að tilefni séu fyrir þeim.

Ég lít svo á að þegar utanríkisráðherra talar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar úr ræðustól Alþingis í heyranda hljóði fyrir sjónvarpsvélum jafngildi það formlegri yfirlýsingu. Eins og áður hefur komið fram eru ekki allir þingmenn sammála þessu formi en ég held mig við það eftir því sem mér þykir best gerast. Á því eru þó skýrar undantekningar.