139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Okkur sem stóðum að stjórnlagaþingi er öllum mikill vandi á höndum því að Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna til þess ógilda og hæstv. innanríkisráðherra er vandi á höndum að vinna úr þeirri stöðu. Eftir þær umræður sem fóru fram í þinginu fyrir helgi hefur ráðherrann fundað með stjórnlagaþingsfulltrúunum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þar hafi komið fram einhverjar nýjar áherslur eða hvort viðhorf hans í þessu efni hafi tekið breytingum eftir þau fundarhöld. Eins spyr ég, vegna þess að boðuð hafa verið fundarhöld með leiðtogum stjórnmálaflokkanna í þinginu, hvort hæstv. innanríkisráðherra telji það ekki grundvallaratriði að aðferðin sem viðhöfð verður við að velja stjórnlagaþingið — því að sannarlega er ríkisstjórnin ákveðin í að halda stjórnlagaþing — verði hafin yfir allan vafa, verði óvefengjanleg og að um hana verði býsna víðtæk sátt, þ.e. að við förum að dómi Hæstaréttar í hvívetna, eins og ráðherrann hefur lýst yfir, ekki bara að formi heldur einnig í anda.