139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að árétta það að kosning þess stjórnlagaþings sem við viljum að endurskoði hér grundvallarleikreglur í samfélaginu þurfi að fara fram með þeim hætti að það verði hafið yfir allan vafa og óvefengjanlegt að um það kjör verði býsna góð sátt í samfélaginu. Þar verður grunnurinn lagður að þeim grundvallarbreytingum sem við ætlum stjórnlagaþinginu að framkvæma.

Ég fagna líka yfirlýsingu ráðherrans um að hér verði kallað eftir víðtækri samstöðu um aðferðir í þinginu en vil að lokum inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvaða tímaramma hann sjái fyrir sér í þessu þó að auðvitað ráði þingið því á endanum. Það er væntanlega mikilvægt fyrir okkur að eyða óvissu í þessu efni og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að það verði í næstu viku eða næsta mánuði eða þurfi að gerast fyrir vorið. Hvernig sér hann (Forseti hringir.) tímarammann?