139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Enda þótt sérstaklega hafi verið óskað eftir því að ég kæmi á fund fulltrúanna og ég hafi orðið við þeirri ósk vil ég taka fram að þetta er ekki sérstaklega á forræði míns ráðuneytis hvað framhaldið snertir. Það er á forræði og vegum okkar allra í þinginu. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns, það er mjög mikilvægt að okkur takist að tryggja sem víðtækasta sátt um framhaldið.

Þannig var það í fyrrasumar að jafnvel þótt margir þingmenn væru mjög ósáttir við það fyrirkomulag sem við samþykktum um stjórnlagaþingið forðuðust menn að fara út í einhvern hávaða í kringum niðurstöðuna af virðingu fyrir niðurstöðunni. Allir voru meðvitaðir um það — það var mín tilfinning — að það ætti að vera friður um þetta ferli eins og framast (Forseti hringir.) væri kostur þar sem verið væri að hefja vegferð þar sem kölluðust á (Forseti hringir.) stjórnlagaþing, þing og þjóðin. Varðandi tímarammann, ég skal segja það á tíu sekúndum, lít ég svo á að ákvörðunarferlið (Forseti hringir.) eigi að vera skammt en varðandi framkvæmdina vil ég gefa okkur góðan (Forseti hringir.) tíma og vanda vel til verka.