139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing og hlutverk Hæstaréttar.

[15:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það var gagnrýnt í úrskurði Hæstaréttar að það væri sitthvað óskýrt, ekki bara í framkvæmdinni heldur einnig í lögunum og samkvæmt mínum skilningi er það svo. Aðkoma Hæstaréttar að kæruferli er skilgreind í 15. gr. laganna um stjórnlagaþing en hins vegar segir í sömu lögum að það skuli byggt á almennum kosningalögum eftir því sem við á.

Í almennum kosningalögum er ákvæði, í 3. mgr. 120. gr., sem skýrir kæruferlið í almennum kosningalögum. Þarna stangast sitthvað á sem er óljóst. Í mínum huga er 15. gr. laganna um stjórnlagaþing varðandi kæruferlið og aðkomu Hæstaréttar ekki nægilega skýr og ég tel að þetta sé einn sá þáttur sem þurfi að skýra betur. Ég ítreka hins vegar að mér finnst forsendur Hæstaréttar að ógilda kosninguna með öllu vera undarlegar þó að ég ítreki jafnframt þá afstöðu mína að við förum að úrskurði Hæstaréttar til hins ýtrasta. Það gerum við að sjálfsögðu. En mér finnst mjög mikilvægt að lögin, lagaramminn og forsendurnar sem Hæstiréttur byggir sína ákvörðun á séu til umræðu og verði okkur vegvísir í viðleitni til að færa málin til betri vegar inn í framtíðina.