139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stjórnlagaþing og hlutverk Hæstaréttar.

[15:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er óskað eftir því að ég standi hér og biðjist afsökunar. Einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur krafist afsagnar minnar á grundvelli úrskurðar Hæstaréttar. Er til of mikils mælst að ég hafi málfrelsi til að ræða þann úrskurð sem stjórnmálamaður eða ætlast menn til að sú umræða verði þögguð niður? Forsendur og grunnforsenda réttarríkisins er að virða ákvarðanir og úrskurði dómstóla. Það geri ég. Það hef ég tekið fram í hverri einustu ræðu sem ég hef flutt um þetta mál og í hverju einasta viðtali sem ég hef skýrt mín viðhorf. En ég leyfi mér eftir sem áður að sjálfsögðu að ræða þær forsendur sem Hæstiréttur byggir á og þann lagaramma sem hann starfar samkvæmt. (Forseti hringir.) Þetta er líka grundvallarviðhorf í lýðræðisþjóðfélagi.