139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja máls á samgöngumálum og flugmálum almennt og sérstaklega innanlandsfluginu. Staðreyndin er náttúrlega sú að á undangengnum árum í kjölfar efnahagshrunsins hefur orðið mikill samdráttur og niðurskurður sem hefur m.a. bitnað á samgöngumálunum. Svo dæmi sé nefnt vörðum við rúmum 34 milljörðum til samgöngumála á árinu 2009. Við erum komin í rúma 20 milljarða fyrir fjárlög 2011. Þarna erum við að tala um samdrátt upp á 41%. Til flugmálanna er samdrátturinn ívið minni eða um 31%. Styrkir til almenningssamgangna hafa verið að dragast saman. Þar er það miklu minna, um 13%, til flugvalla um 34%. Almenna línan sem tekin hefur verið er að hlífa eftir því sem kostur er innanlandsfluginu og gera Keflavíkurflugvöll að sjálfbærri rekstrareiningu, það er hugmyndin.

En svo ég víki aðeins nánar að því sem gert hefur verið í þessum samdrætti, eða aðlögun sem stundum er nefnd, þá hefur verið sett fram sparnaðarkrafa á rekstur flugkerfisins í heild sinni sem snýr að rekstri Isavia ohf. sem rekur fyrir okkur innanlandsflugvellina og Keflavíkurflugvöll. Niðurskurður á fjárveitingum ríkisins á fjárlögum þessa árs frá fyrra ári eru rúmar 400 millj. kr. sem eru um 15,3% niðurskurður. Þessu verður ekki mætt með öðru en aðhaldi í rekstri, lækkun þjónustustigs og/eða aukinni tekjuöflun félagsins.

Þá er rétt að geta þess að skattar á áfengi og tóbak í fríhafnarverslunum hafa hækkað nokkuð. Félagið hefur áætlað að tekjutapið af þessum sökum geti numið allt að 350 millj. kr. svo öllu sé til haga haldið en jafnframt skal lögð áhersla á að félagið hefur reynt að gæta þess að hækkunin komi ekki fram í vöruverði í Fríhöfninni sem þessu nemur vegna þess að þá yrðum við fyrir tekjutapi ekki bara sem Isavia eða flugvöllur heldur líka sem ríkissjóður. Þrátt fyrir þennan niðurskurð verður innanlandskerfinu hlíft eins og kostur er og kem ég nánar að því síðar.

Í öðru lagi hafa átt sér stað breytingar varðandi styrki ríkisins til einstakra flugleiða. Þannig hefur verið fallið frá að styrkja flugsamgöngur til Vestmannaeyja og Sauðárkróks meðan reynt hefur verið að bæta í og verja flugsamgöngur til annarra staða sem búa við lakari samgönguskilyrði, svo sem til Bíldudals og Gjögurs. Við verðum að forgangsraða og það er mikilvægt að þeir áfangastaðir sem búa við erfið samgönguskilyrði fái þann stuðning á þessu sviði sem nauðsynlegur er og fyrir því mun ég beita mér. Það er því gleðileg þróun að þrátt fyrir að samningar vegna flugs til Vestmannaeyja og Sauðárkróks hafi ekki verið framlengdir er engu að síður enn flogið þangað og er ástæða til að hæla þeim aðilum sem halda þar uppi flugi og þjónustu.

Því má bæta við að unnið hefur verið að kerfisbreytingu undanfarið sem er sú stefnumörkun að fallið verði frá innheimtu sérstakra flugvallarskatta og varaflugvallargjalds en þess í stað tekin upp þjónustugjöld á flugvöllum. Er það m.a. til að mæta kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi gjaldtöku á flugvöllum. Ég mun á morgun mæla fyrir þessari kerfisbreytingu varðandi flugvallarskattinn og varaflugvallargjaldið en frumvarp er nú fyrirliggjandi um málið. Gert er ráð fyrir að kerfisbreytingin verði komin fram 1. apríl. Allt þetta hefur áhrif á starfsskilyrði flugreksturs hér á landi og varðar bæði innanlandsflugskerfið og alþjóðaflugið. Hjá því verður ekki komist. Hvað varðar rekstur Isavia hafa tvö síðustu atriðin, þ.e. niðurskurður á fjárlögum til félagsins í gegnum þjónustusamning og kerfisbreytingin á tekjuöflun í flugi áhrif á starfsemi félagsins og kallar á ákveðnar breytingar sem ekki verður hjá komist. Ráðuneytið hefur í samstarfi við Isavia unnið að því að breyta þjónustusamningi með hliðsjón af þessu en samningurinn skilgreinir hvernig þeim fjármunum er varið sem renna frá ríki til félagsins, 2.437,6 millj. kr. á fjárlögum. Því verkefni er ekki lokið enn þá en ég vænti þess að fá tillögur þar að lútandi (Forseti hringir.) mjög fljótlega.

Meginatriðið er þetta: Við höfum reynt að hlífa innanlandsfluginu. Það er skorið niður um 400 millj. kr. 10 millj. kr. bitna á innanlandsfluginu sérstaklega (Forseti hringir.) en hitt er á alþjóðaflugvellinum sem við stefnum að að gera að sjálfbærri rekstrareiningu.