139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Innanlandsflug er lífæð samgangna á Íslandi í tvennum skilningi, annars vegar sakir þeirra vegaslóða sem enn eru við lýði víða á Vestfjörðum og Austfjörðum, hins vegar er það öryggisþátturinn sem við skulum aldrei vanmeta. Landspítali er stórt orð. Hann er að finna í Reykjavík og um 430 manns fara árlega með sjúkraflugi til þess spítala. Það gerir 2 þús. manns á einum áratug og þar af er helmingur í lífshættu. Þess vegna er innanlandsflug lífæð samgangna á Íslandi.

Forsendur fyrir þessu flugi eru a.m.k. tvær, annars vegar að ríkið hjálpi þessum samgöngum í lofti og hins vegar að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni með þeim brautum sem þar eru fyrir hendi. Nýtingarhlutfall hans í dag er 99% og mun fara niður í 85% ef önnur flugbrautin verður lögð af og þar með verður rekstrarhæfi flugvallarins kippt út. Þessar tvær forsendur verður að uppfylla til að við höldum uppi þessari lífæð í samgöngum landsmanna. Ef menn velja annan kost verða þeir að nefna hann. En ég nefni það hér að líf landsmanna er í húfi og fyrst og fremst ber að hafa það í huga.

Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hefja máls á innanlandsflugi sem við skulum styðja og við gerðum það (Forseti hringir.) m.a. í fjárlagagerð þegar við minnkuðum hagræðingarkröfu til Isavia um 150 millj. kr.