139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[16:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vona að ekki sé innstæða fyrir þessari miklu bölsýni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann nefnir réttilega ýmsar álögur sem settar hafa verð á flugið og hann bendir á niðurskurð. Allt er þetta rétt enda stöndum við Íslendingar frammi fyrir miklum þrengingum í þjóðarbúi okkar. Ef við hefðum úr nægum fjármunum að spila mundum við forgangsraða í almenningskerfinu til innanlandsflugsins. Ég lagði í málflutningi mínum áherslu á að við værum einmitt að gera það. Þegar ég tala um að hlífa innanlandsfluginu er ég að tala um málin í því samhengi að hlífa því gagnvart niðurskurðarhnífnum sem við erum að beita á nánast allt útgjaldakerfi ríkisins, þá er það innanlandsflugið sem við viljum hlífa.

Ég tek undir þá þætti í máli hv. þingmanna Guðmundar Steingrímssonar og Sivjar Friðleifsdóttur þar sem þau leggja áherslu á almenningssamgöngur. Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, að einkabíllinn hefði samkeppnisforskot að mörgu leyti.

Hér töluðu margir skýrt. Það gerðu ekki alveg allir. Mér fannst hv. þm. Kristján Þór Júlíusson eiga erfitt með að sjá út úr þokunni. Mér finnst þetta ekkert þokukennt. Það er alveg skýrt hver afstaða íslenskra stjórnvalda er og hvað það er sem við erum að gera, það er alveg skýrt. Við erum að breyta kerfinu í samræmi við kvaðir sem settar eru á okkur frá ESA, frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Við erum að hverfa frá skattlagningu og fara yfir í notendagjöld. Þetta er að ganga í gegn núna. Það er ekkert óskýrt í þessu. Það er heldur ekkert óskýrt í því að við viljum stefna að því að gera alþjóðaflugvöllinn sjálfbæran og tekjuaflandi á sama tíma og við viljum halda stuðningi við innanlandsflugið. Þetta kemur fram (Forseti hringir.) í fjárlögum og í öllum okkar gjörðum.