139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

undirbúningur og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

429. mál
[16:10]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja athygli á málefnum náttúrustofanna og þakka ég jafnframt hæstv. ráðherra fyrir svar hennar.

Frá því er að segja að náttúrustofurnar eru að mínu mati glæsilegt dæmi um flutning fagþjónustu út á land þar sem hún á akkúrat heima í þessu tilviki. Náttúrustofur kalla jú á náttúruna og hana er helst að finna úti á landi en síður á malbikinu hér á suðvesturhorninu.

Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að einmitt eigi að nota það vit og þá þekkingu sem er að finna á náttúrustofunum hringinn í kringum landið til að gera þær áætlanir sem við á að éta í þeim efnum því að þar er hin praktíska þekking. Ef við notum hana ekki endar það með ýmiss konar slysum sem menn þekkja þegar þeir gera áætlanir sem ekki eru í samræmi við raunveruleikann.