139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

undirbúningur og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

429. mál
[16:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hefur farið fram. Sérstaklega vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hún veitti í svari sínu við fyrirspurn minni. Sömuleiðis vil ég segja að ég tel að hæstv. ráðherra hafi sýnt mjög góðan skilning á starfsemi náttúrustofanna. Það hefur m.a. komið fram í umræðum í þinginu, það kom glögglega fram þegar við ræddum náttúruverndaráætlunina og það kom vel fram þegar ég lagði fram breytingartillöguna sem hæstv. ráðherra lýsti stuðningi við og sýndi líka með svari sínu áðan að hún hefur áhuga á að þetta verði ekki bara orðin tóm, því verði í rauninni fylgt eftir sem Alþingi samþykkti og náttúrustofurnar komi að framkvæmd þeirrar náttúruverndaráætlunar sem nú er í gildi. Sömuleiðis lýsti hæstv. ráðherra því yfir að það væri ætlun hennar að náttúrustofurnar kæmu að undirbúningi næstu náttúruverndaráætlunar og að samstarf við náttúrustofurnar í því sambandi yrði aukið enn þá frekar.

Að öðru leyti vil ég segja þetta um málið: Ég held að það sé almennt skynsamlegt að kalla sem flesta til við undirbúning slíkra mála. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að kalla eftir sjónarmiðum úr vísindasamfélaginu sem víðast að, það er m.a. gert með því að fá þær náttúrustofur sem starfa hringinn í kringum landið að þessari vinnu. Það hefur líka byggðarleg áhrif. Það eflir þekkingu á umhverfinu sem við höfum öll verið að tala fyrir að þurfi að gerast úti á landsbyggðinni.

Þetta dregur, eins og hefur líka komið fram, úr þeirri tortryggni sem oft hefur einkennt þennan vandasama málaflokk af ýmsum ástæðum. Svo tel ég líka að náttúrustofurnar eigi almennt talað mikið erindi í þessa vinnu. Þær búa að staðarþekkingu til viðbótar við þá almennu vísindaþekkingu sem þar hefur verið að byggjast upp. Þess vegna er enginn vafi á því að með aukinni þátttöku náttúrustofanna verði meiri sátt um náttúruverndaráætlunina (Forseti hringir.) og má líka ætla að framtíðarnáttúruverndaráætlanir verði betur undirbúnar og þjóni þeim (Forseti hringir.) tilgangi sem þeim er ætlað.