139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

dýpkunarframkvæmdir í Hornafjarðarhöfn.

270. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Málefni hafna hafa verið talsvert í umfjöllun og umræðunni undanfarin missiri með tilkomu Landeyjahafnar þar sem þurft hefur að fara í miklar og umfangsmiklar dýpkunarframkvæmdir. Við þá umræðu bentu ágætir menn á Hornafirði á þá staðreynd að stöðug þörf er á dýpkun innsiglingarinnar í Hornafjarðarhöfn og hefur verið frá því að höfnin var tekin í notkun. Mig langaði því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort þetta mál hafi fengið einhverja athygli. Eins og það lítur út fyrir heimamönnum og eins og það lítur út fyrir mér, þegar ég fer að kynna mér það, er þörf á öflugra dýpkunarskipi í Hornafjarðarhöfn til þess að betri árangur náist í því að halda innsiglingunni hreinni en vegna náttúrulegra aðstæðna er höfnin mjög erfið að þessu leyti. Það væri hægt að eiga betur við þetta ef við ættum öflugra skip. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til innanríkisráðherra hvort ráðuneytið hafi einhver áform um að leysa þennan vanda varðandi dýpkun innsiglingarinnar í Hornafjarðarhöfn og ef svo er hvaða undirbúningsvinna hafi átt sér stað í því skyni og hvaða úrlausn sé væntanleg.

Ég tel mikilvægt að við horfum á þessi mál í heild og tilefnið, Landeyjahöfnin okkar góða, gefur ástæðu til frekari umræðu um þessi mál en eins og allir vita er þörf á stöðugri dýpkun, bæði í Hornafjarðarhöfn og eins í Landeyjahöfn. Það er rétt að minnast á að dýpkunar er þörf í öllum höfnum landsins og t.d. þurfti að vera í umfangsmiklum dýpkunarframkvæmdum í Þorlákshöfn þegar sú höfn var fyrst tekin í notkun. Þetta eru því engar nýjar staðreyndir sem koma fram við tilkomu Landeyjahafnar þó að þar séu aðstæður vissulega sérstakar. Það er því ljóst að þörf er á umræðu um þessi mál og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra hafi skoðað þetta í hinu nýja innanríkisráðuneyti.