139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

dýpkunarframkvæmdir í Hornafjarðarhöfn.

270. mál
[16:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Fyrirspurnin snýr að dýpkun innsiglingar í Hornafjarðarhöfn og hvaða undirbúningsvinna hafi átt sér stað, hvaða athygli þetta mál hafi fengið. Ég fullvissa hv. þingmann um að svo er og sú greinargerð sem ég flyt hér byggir á upplýsingum sérfræðinga í innanríkisráðuneytinu og í Siglingastofnun.

Í ágúst fram í nóvember 2005 var dýpkuð innsiglingarrenna fyrir Grynnslin utan Hornafjarðaróss og fjarlægðir um 55 þúsund rúmmetrar af efni úr rennunni. Árangur af dýpkun var takmarkaður enda um tilraunaverkefni að ræða. Kom í ljós í mars árið 2006 að mikið af efni hafði á skömmum tíma borist aftur inn á dýpkunarsvæðið og er það í samræmi við niðurstöðu efnisburðarreikninga sem Siglingastofnun hafði gert.

Í athugasemdum við gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 segir m.a., í kafla 3.1.2 þar sem fjallað er um hafnir, líkantilraunir og grunnkort: (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti vill benda hæstv. ráðherra á að klukkan er vitlaus, hann á þrjár mínútur eftir af ræðutíma.)

Ég þakka fyrir þessa ábendingu. Ég var í þann veginn að hefja tilvitnun hér, með leyfi forseta:

„Þá verða kannaðir möguleikar á nýrri innsiglingu við Hornafjarðarós og úrbætur á dýpi á Grynnslunum.“

Síðar í sama kafla athugasemdanna þar sem fjallað er um hafna- og strandarannsóknir segir:

„Helstu verkefni eru: Öldufars- og efnisburðarrannsóknir vegna ferjulægis við Bakkafjöru, landbrot við Vík í Mýrdal, Jökulsá á Breiðamerkursandi og siglingaöryggi stærri fiskiskipa á grunnsævi, einkum á Grynnslunum utan við Hornafjarðarós.“

Svipaður texti var í athugasemdum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Siglingastofnun hóf undirbúning að öldufarsrannsóknum fyrir Suðausturland með áherslu á Hornafjörð og Breiðamerkurlón á vordögum 2009. Í skýrslu Siglingastofnunar, „Hornafjarðarós og Breiðamerkurlón: Öldufarsrannsóknir. Áfangaskýrsla 1. september 2009“, eru kynntar niðurstöður öldufarsteikninga fyrir Grynnslin og Hornafjarðarós ásamt ströndinni undan Jökulsá á Breiðamerkursandi. Niðurstöðurnar eru birtar bæði myndrænt og í töflum.

Á grundvelli þessara öldufarsrannsókna voru lagðar fram tillögur til úrbóta til að draga úr takmörkunum sem nú eru á dýpi á Grynnslunum og gætu leitt til þess að stærri og djúpristari fiskiskip gætu siglt þar um án mikilla takmarkana. Þessar tillögur voru kynntar í hafnarstjórninni á Höfn á fundi 16. júní 2009. Hugmyndin er að auka dýpið yfir grynnslin með því að skapa náttúrulegt dýpi meðfram leiðigarði sem byggður yrði í framhaldi af Þinganesskarði til suðausturs. Leiðigarðurinn mun beina útfallsstraumnum úr Hornafjarðarósi eftir garðinum og halda náttúrulegri rennu meðfram honum. Hugmyndin er að auka þannig dýpið um allt að einn metra eða niður á um átta metra á fjöru. Til að leggja mat á straumana frá Hornafjarðarósi verður sett upp nákvæmt sjávarfallalíkan af ósnum í byrjun árs 2011 og er það gert sem hluti af verkefninu „Sjávarfallastraumar í Hornafirði“ sem er samstarfsverkefni sveitarfélagsins Hornafjarðarbæjar, Siglingastofnunar Íslands, Verkfræðistofunnar Verkís, Háskólans í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands með styrk frá orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar.

Verkefnið fjallar um mögulega nýtingu sjávarfallastrauma í raforkuframleiðslu í Hornafirði. Með aðstoð sjávarfallalíkansins verða straumar á Grynnslunum kannaðir. Jafnframt verða gerðar efnisburðarrannsóknir bæði austan og vestan Hornafjarðaróss. Niðurstöður þessarar rannsóknar munu verða birtar í áfangaskýrslu 2. Í þeirri skýrslu verður lagt mat á hve raunhæfar þessar tillögur eru til lausnar siglingar stærri fiskiskipa yfir Grynnslin og hvort fara þurfi í viðameiri rannsóknir á efnisburði. Ef niðurstöður benda til þess að þörf verði á umfangsmiklum efnisburðarrannsóknum verður væntanlega einnig leitað til erlendra ráðgjafaraðila. (Forseti hringir.)

Uppsetning á sjávarfallalíkaninu verður fjármögnuð af sveitarfélaginu Hornafirði ásamt samstarfsaðilum að sjávarfallaverkefninu en aðrar rannsóknir á árinu 2011 verða fjármagnaðar af fjárheimildum Siglingastofnunar til rannsóknar samkvæmt fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012.

Eins og hér má heyra er þetta mál ekki gleymt og það er í góðu ferli.